Skoðun

Snillingar framtíðarinnar?

Marta Hrafnsdóttir skrifar
Er menntakerfi okkar tilbúið til þess að horfast í augu við þá áskorun sem framtíðin ber í skauti sér? Er námsefnið sniðið að þörfum næstu kynslóðar sem tekur við af okkur? Hefur einhver velt því fyrir sér hversu ört tækninýjungum rignir yfir okkur svo okkur fullorðna fólkinu þykir stundum nóg um? Þeim á bara eftir að fjölga og hraðinn á öllum þessum nýungum á bara eftir að verða meiri.

Menntakerfið í dag er ekki hannað til þess að takast á við þessar áskoranir. Hönnun þess horfir frekar til fortíðar en til framtíðar. Það er áhugavert að skoða t.d. stigveldi menntunar. Efst eru raungreinar og tungumál og þar fyrir neðan eru húmanísku fögin s.s. félagsfræði, sálfræði og þá íþróttir. Neðst eru svo listgreinar sem einnig er raðað eftir ákv. stigveldi þar sem tónlist og myndlist er efst en dans og leiklist neðst. Svo þegar skó kreppir að eða hækka á staðalinn í skólum, eru listfögin alltaf fyrst út af borðinu. Fyrst þau neðstu og svo koll af kolli. Tungumál og raungreinar virðast vera mikilvægust en saga, félagsfræði og listgreinar ekki, svo eitthvað sé nefnt. Árið 2001 voru ný lög samþykkt í Bandaríkjunum nefnt Elementary and Secondary Education Act (ESEA) sem gekk út á að hækka staðalinn í skólum landsins og undirbúa nemendur betur undir háskólanám og jafnframt samkeppnishæfni Bandaríkjanna í heild. Áhersla var á stærðfræði og tungumál og þessi fög reglulega prófuð. Því fleiri nemendur sem skiluðu ásættanlegum niðurstöðum úr þessum prófum, því hærri styrkur var veittur í tiltekins skóla. Og hvað gerðist? Listkennslan datt út, húmanísku greinarnar margar hverjar líka eða urðu píp eitt. Nemendur hættu í umvörpum og kennarar sömuleiðis. Þetta varð að vítahring því fjármagn kom einungis inn ef þessar tvær greinar skiluðu góðum niðurstöðum. Eins og gefur að skilja virkaði kerfið ekki eins og skildi. Það er eins og forráðamenn átti sig ekki á því að til þess að efla menntun þarf einmitt að hlúa einnig að húmanísku greinunum, listgreinunum, íþróttum og efla tengingu allra þessara greina þar með talið raungreinar og tungumál.

Hefur einhver fengið jafn mikla kennslu í stærðfræði og dansi í grunn eða menntaskóla? Af hverju ekki? Rökin eru þau að t.a.m. listgreinar séu ekki ávænlegar þegar kemur að framtíðarstarfi en raungreinar séu það aftur á móti. Hverjum dettur í hug að segja að allir komi til með að verða stærðfræðingar í framtíðinni? Þá komum við að rótum vandans. Tæknivæðingin er svo hröð að t.d.   venjulegur stærðfræðingur framtíðarinnar sem einungis hefur fengið menntun í téðum raungreinum og tungumálum en enga eða mjög takmarkaða listkennslu á mun erfiðara með að takast á við og bregðast við stöðugt nýjum og óvæntum breytingum því það vantar alveg inn í menntun hans sköpunarþáttinn. Hvernig á hann að bregðast við stöðugum nýjungum? Með líkindareikningi? Þetta vandamál er þegar til staðar því mörg alþjóðleg fyrirtæki kvarta yfir því að það vanti einmitt þennan þátt inn þó svo að einstaklingurinn sem hefur verið ráðinn sé með bestu mögulegu menntun og gráðu! Ef sköpunarþátturinn er virkur í gegnum allt menntastigið er alveg ljóst að menntakerfið gæti gefið af sér miklu heilsteyptari og sterkari einstaklinga til þess að takast á við framtíðina. Af hverju? Jú, það er svo erfitt að takast á við hið óvænta, ókunnuga sem býður stöðugt handan við hornið ef hugsunin er ekki nógu frjó. Staðreyndir dagsins breytast svo hratt og verða úreltar á morgunn þar sem 6+6 gæti orðið 13 þó það sé óhugsandi í dag. Því endurtek ég að menntakerfið horfir ekki fram á við heldur horfir frekar um öxl sér. Við ólumst ekki upp við þennan hraða en þær framfarir sem við sjáum í dag eru þegar með ólíkindum. Ef við lítum bara 20 ár aftur í tímann þar sem engan eða í það minnsta örfáa dreymdi um þá þróun og möguleika internetsins sem við búum við í dag. Ímyndið ykkur svo það sem börnin í dag eiga eftir að upplifa í framtíðinn! Nano tækni eða gervigreind fremri en mannleg greind svo eitthvað sé upp talið og stöðugar nýjar framfarir við hvert fótmál.

Ekki gleyma því að  eitt af grunnþáttum listnáms er einmitt sköpunarþátturinn. Ég held að fólk átti sig ekki almennilega á hversu mikilvægur þáttur þetta er í menntun okkar. Íslendingar hafa verið heppnir því hlutfallslega  margir, ef litið er til annara þjóða, hafa getað sótt sér tónlistarkennslu eða aðra listkennslu utan almenns skólatíma en þetta kostar og er ekki aðgengilegt öllum og ekki er útlitið beysið fyrir tónlistarskóla landsins eins og staðan er í dag. Fæstir foreldrar sjá fyrir sér framtíðar listamann þegar þau setja börnin sín í eitthvert listnám heldur eru þau að gefa börnunum  tækifæri til þess að þróa listsköpun sína. En hvað ef listgreinum yrði sett jafn hátt undir höfði og nýttar inn í aðrar greinar? Til dæmis Stærðfræði/ íþróttir, dans/ tungumál, saga/myndlist, tónlist/stærðfræði? Ég sé endalausa möguleika bæði fyrir kennara og nemendur. Stærðfræði gæti orðið skemmtilega skapandi, börn fengju tækifæri til þess að þróa sköpunargetu sína hvort sem er í lestri, list eða rannsóknarvinnu. Öll börn búa yfir getu til sköpunar. Það er okkar að finna leið til þess að virkja þennan þátt inn í menntakerfið svo börnin séu betur undirbúin undir framtíðina.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×