Skoðun

Smurt ofan á húsnæðislánin

Finnur Árnason skrifar
Viðamesta aðgerð stjórnvalda á kjörtímabilinu er lækkun lána skuldsettra heimila, sem kostar ríkissjóð um 80 milljarða. Meginhluti húsnæðislána er verðtryggður. Því skiptir miklu fyrir heimilin að verðbólga sé lág, hvert prósentustig kostar þau 13-14 milljarða í auknum skuldum. Aukist verðbólga um 1% varanlega þurrkast ávinningur, vegna þessarar viðamiklu aðgerðar, út á 5-6 árum.

Nefnd landbúnaðarráðherra tók nýlega ákvörðun um að hækka verð á smjöri um 11,6%. Ákvörðunin var kynnt á laugardegi, 18. júlí, og mun hækkunin taka gildi 1. ágúst ef ráðherra endurskoðar hana ekki. Kynningunni fylgdi að smjör hefði ekki hækkað frá október 2013. Athygli vekur að lítill hluti hækkunarinnar gengur til bænda og auknar álögur eru settar á neytendur. Því er eðlilegt að spyrja fyrir hvern þessi hækkun er.

Vísitala neysluverðs hækkaði frá október 2013 þar til nú um 3,56%. Smjörhækkunin er rúmlega þreföld hækkun vísitölu neysluverðs. Hækkunin mun valda verðbólgu, meiri en tilefni er til. Neytendur borga hærra verð fyrir smjörið og lán skuldsettra heimila hækka. Ákvörðunin veldur því tvöföldum skaða.

Undanfarið hafa verið meiri átök á vinnumarkaði en um margra ára skeið. Aðilar vinnumarkaðarins hafa flestir séð til lands og samið. Samningar eru til langs tíma og markmiðið að auka kaupmátt. Samningarnir eru framþungir, þ.e. launahækkanir eru meiri á fyrri hluta samningsins en á síðari hluta. Því skiptir miklu að aðhalds sé gætt í verðlagsmálum og verðbólgu haldið í skefjum. Þar sem kostnaðarauki á fyrri hluta samningsins er meiri, skapar það aukna hættu á þrýstingi á verðlag. Fyrstu 12-18 mánuðir samningstímans eru viðkvæmir og skipta sköpum. Hver ákvörðun fyrirtækja og stjórnvalda skiptir því miklu, því einungis ábyrg ákvörðunartaka mun skila kaupmáttaraukningu.

Með framangreint í huga er ákvörðun stjórnvalda um að hækka smjör um 11,6% óskiljanleg. Hún er óábyrg og vanhugsuð. Tímasetningin gat ekki verið verri. Það eitt að stjórnvöld taki ákvörðun um verðlagningu á einstakri vöru sjálfstæðs fyrirtækis er tímaskekkja. Tilvist verðlagsnefndar búvara er því að sjálfsögðu barn síns tíma. Alvarlegra er að stjórnvöld sýni ekki meiri ábyrgð en svo, að þau taki ákvörðun um að hækka verð á stakri nauðsynjavöru um þrefalda almenna verðlagsþróun á mjög viðkvæmum tímapunkti.

Ég skora á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun um hækkun á mjólkurvörum. Þannig sýna þau gott fordæmi. Fordæmi sem stuðlar að því að árangur náist af samningum vinnumarkaðarins. Fordæmi sem mun eiga stóran þátt í að auka kaupmátt íslenskra heimila.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×