Skoðun

Smartasta pían á ballinu?

Ingibjörg Gréta Gísladóttir skrifar
Hönnun er einn af stærri þáttum í okkar tilveru. Nokkuð sem við oft og tíðum veitum enga athygli en er samt svo nálægt og sjálfsagt. Hönnun hefur ótrúlega margar hliðar og sérhæfingar innan hönnunar eru í sífelldri þróun.

Upplifunarhönnun er ein tegund hönnunar sem hefur undanfarin ár verið að ryðja sér til rúms hér á landi. Með upplifunarhönnun er til dæmis átt við hvernig vara, þjónusta og verkferlar geta verið hannaðir með áherslu á upplifun neytandans sem aftur byggist á tilfinningum og hegðunarmynstri í hans daglegu lífi.

Margir verða eitt spurningarmerki í framan þegar rætt er um upplifunarhönnun en ef grannt er skoðað þá er upplifun eitt af sterkustu vopnum viðskiptalífsins. Upplifun viðskiptavina getur nefnilega haft úrslitaáhrif á hvort varan eða þjónustan nái flugi því ef upplifunin er slæm þá er það næstum öruggt að viðkomandi snúi sér annað. Sé upplifunin hins vegar jákvæð svo ekki sé minnst á að hún komi ánægjulega á óvart þá erum við ekki spör á að deila reynslunni og hvetja til viðskipta við viðkomandi.

Margir nýta sér upplifunarhönnun til að bæta þjónustu sína. Þannig fékk til dæmis rútufyrirtæki í Hollandi ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í upplifunarhönnun, til að kanna hvaða lykt myndi veita farþegum þeirra meiri öryggistilfinningu en önnur. Niðurstaðan varð sú að á meðal þeirra 500 farþega sem spurðir voru sögðu flestir að lyktin af mandarínu, fjólu, drottningarblómi, leðri og tré yki hjá þeim öryggistilfinningu. Rútufyrirtækið er nú að íhuga að setja lykt í þá bíla sem keyra í áhættumeiri umferð.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi hafa mörg hver náð góðum árangri með því að nýta sér hönnun með upplifun að leiðarljósi. Fyrirtæki eins og WOW, Bláa lónið, Hótel Marina og KEX hostel svo dæmi séu tekin, hafa náð að skapa sérstaka upplifun með aðstoð hönnunar. Það er einhver tilfinning sem nær til viðskiptavina þeirra og er þess valdandi að þeir hrósa, gefa einkunn og hvetja þannig aðra til að upplifa hið sama.

Hönnun og skapandi greinar eru stundum kallaðar smartasta pían á ballinu sem margir daðra við. En sá sem býður henni upp og dansar við hana verður ekki samur á eftir. Hagræn áhrif eru töluverð af slíkum dansi og með góðri upplifun nærstaddra verður dansinn eftirminnilegur og eftirsóttur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×