Viðskipti innlent

Slitastjórn Kaupþings ætlar á eftir Hreiðari Má

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Æðstu stjórnendur Kaupþings sem skulduðu bankanum mest vegna hlutabréfakaupa hafa lítinn vilja sýnt til að semja um skuldirnar ólíkt þeim sem voru með lægri fjárhæðir. Slitastjórn Kaupþings telur að Hreiðar Már Sigurðsson hafi ekki réttilega stofnað félag utan um skuldir sínar.

Á þremur og hálfu ári frá ársbyrjun 2005 ríflega áttfölduðust lán sem Kaupþing veitti starfsmönnum sínum til hlutafjárkaupa í bankanum og stóðu í um 45 milljörðum króna í upphafi árs 2008. Lánin stóðu í 60 milljörðum króna við fall bankans í byrjun október 2008, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Samkvæmt skýrslunni skulduðu tíu starfsmenn Kaupþings bankanum samtals rúmlega þrjátíu og þrjá milljarða króna vegna lána til hlutabréfakaupa við fall hans í október 2008. Slitastjórn Kaupþings hefur undanfarin ár verið að reyna að endurheimta peningana eftir að ákvörðun var tekin um rifta þeirri ákvörðun stjórnar bankans að fella niður persónulegar ábyrgðir vegna hlutabréfakaupa í september 2008. Í einhverjum tilvikum voru starfsmennirnir með takmarkaða ábyrgð og í einhverjum var um fulla ábyrgð að ræða. T.d í tilviki Sigurðar Einarssonar snýst málshöfðun slitastjórnar Kaupþings um 550 milljónir króna, þótt lán til Sigurðar hafi numið 7,8 milljörðum króna við fall bankans. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur slitastjórn Kaupþings unnið þessi mál þannig að lögð er áhersla á eðlilegar endurheimtur í samræmi við eignir viðkomandi enda hagnast þrotabú bankans ekki á því að gera fólk gjaldþrota. Í flestum tilvikum krafðist slitastjórnin eignayfirlits og skattframtala nokkur ár aftur í tímann til að fá rétta mynd af eignastöðu starfsmanna sem fengu lán.

Við skulum kíkju á þá tíu stærstu sem fengu lán, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í tíunda sæti er Frosti Reyr Rúnarsson með 1,3 milljarða króna. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er skuldin ógreidd en Frosti Reyr hefur lagt öll spilin á borðið og er í samningaviðræðum við slitastjórnina.

Bjarki Diego var með 1,1 milljarðs króna lán með takmarkaðri ábyrgð. Bjarki sagði við fréttastofuna að hann hefði samið við slitastjórnina um skuldina og hefur hann greitt það sem honum bar að greiða að fullu.

Guðný Arna Sveinsdóttir var með lán upp einn og hálfan milljarð króna og er mál hennar nú rekið fyrir dómstólum. Var hús í hennar eigu kyrrsett af slitastjórn.

Kristján Arason færði skuldir sínar í eignarhaldsfélagið 7 hægri ehf. í febrúar 2008 en skuldaði 1,8 milljarða. Lánin voru færð í 7 hægri utan þess tíma sem slitastjórnin hafði til að rifta yfirfærslunni (lengra en sex mánuðum fyrir frestdag). Ekkert mál hefur verið höfðað á hendur Kristjáni eða félagi í hans eigu og er óvíst að skuldirnar verði greiddar.

Steingrímur Páll Kárason var með 2,2 milljarða króna lán við bankann við fall hans. Hann hefur samkvæmt heimildum fréttastofunnar ekki sýnt vilja til að semja og hefur slitastjórnin kyrrsett atvinnuhúsnæði í Reykjavík í eigu hans og Ingólfs Helgasonar. Eru grunsemdir um að þar leynist mikið magn áfengis, líkt og Fréttatíminn greindi frá í síðustu viku.

Hannes Frímann Hrólfsson var með 2,4 milljarða króna skuld við fall bankans. Sú skuld er ógreidd en Hannes sagði við fréttastofu í dag að hann ætti í viðræðum við slitastjórnina. Þá sagðist hann hafa fært til baka eignir sem hann færði á sambýliskonu sína í bankahruninu.

Ingólfur Helgason var með 3,4 milljarða króna og Ingvar Vilhjálmsson 5,7 milljarða. Mál gegn báðum eru nú rekin fyrir dómstólum. Ingvar Vilhjálmsson var samstarfsfús og leiðrétti kaupmála sem hann gerði við eiginkonu sína í hruninu.

Hreiðar Már Sigurðsson færði skuldir sínar í einkahlutafélag árið 2007. Félagið var með útistandandi skuldir upp á 5,8 milljarða króna í hruninu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Hreiðar Már ekki sýnt vilja til að semja um skuldina en slitastjórn Kaupþings lítur svo á að félag hans hafi ekki verið réttilega stofnað árið 2006 þar sem það gleymdist meðal annars að greiða 500 þúsund króna stofnfé inn í það. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur lögmönnum verið falið að vinda ofan af félaginu og í kjölfarið krefja Hreiðar Má Sigurðsson persónulega um fjárhæðina.

Sigurður Einarsson var á toppnum með 7,8 milljarða, eins og áður segir. Sigurður hefur hafnað ábyrgð og er mál Kaupþings á hendur honum nú rekið fyrir dómstólum. Næsta fyrirtaka er í því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. september næstkomandi, en Hæstiréttur hafði áður hafnað því að málið yrði fellt niður eftir að Sigurður hafði krafist þess.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ekki sjálfgefið að slitastjórn Kaupþings geti farið í mál gegn Hreiðari Má persónulega á þeirri forsendu að félag hans hafi ekki verið réttilega stofnað. Það geti hins vegar haft ákveðin réttaráhrif að til félagsins hafi ekki verið stofnað réttilega, en stjórnarmenn geti undir ákveðnum kringumstæðum orðið bótaskyldir ef rekstur félags hafi ekki uppfyllt neina lágmarkskröfu um að vera sjálfstæður lögaðili. Undir þeim kringumstæðum hafi menn ekki getað skýlt sér á bak við félagaformið. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er það að hluta til á þessum forsendum sem slitastjórnin vill láta á það reyna hvort Hreiðar Már geti borið ábyrgð á skuldum hlutafélagsins Hreiðar Már Sigurðsson ehf.

Ítarleg umfjöllun er um kaupauka- og hvatakerfið hjá Kaupþingi í skýrslu rannsóknarnefnarinnar. Fyrirsvarsmenn bankans virðast hafa lagt hart að starfsmönnum að taka við háum lánum til kaupa á hlutabréfum og fyrirtækjamenning sú er við lýði var innan bankans hneig einnig í þá átt. Guðmundur Þórður Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, lýsti þessu með eftirfarandi hætti fyrir rannsóknarnefndinni: „ef þú sest niður með yfirmanni þínum: Heyrðu, ég bara hef ekki efni á að taka svona stórt lán hjá þér. Hann: Mér finnst að, þú átt að taka þetta. Ég: Nei, veistu að mér líst ekki á þetta, ég er ekki með nógu há laun til þess að standa undir þessu hérna. Hann: Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því, það eru, áhætta þín er í raun og veru mjög takmörkuð eða engin. Þú tekur þetta hér." (Skýrsla RNA, kafli 10.5.2.2).

Æðstu stjórnendur Kaupþings virðast ekki hafa látið starfsmenn vita að heimild hafi fengist hjá FME til að færa skuldirnar í einkahlutafélög, líkt og Hreiðar Már Sigurðsson gerði sjálfur árið 2007. Þurftu einstaka starfsmenn að berjast sérstaklega fyrir því að fá skuldirnar færðar í einkahlutafélög eftir að það fór að kvisast út að forstjórinn hefði fengið að gera slíkt.

Hreiðar Már Sigurðsson virtist vera fullur eftirsjár í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni hinn 21. júlí 2009, en orðrétt sagði hann: „Ef ég væri að stofna banka í dag þá mundi ég ekki byggja svona kerfi aftur, það er mitt (mat) - ég held að það hafi ekki verið gott kerfi. Þetta er bara mjög sárt hvernig þetta hefur farið og hvað þetta hefur valdið fyrrum samstarfsmönnum mínum miklum vandræðum." thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×