Innlent

Skýrslutökurnar varpi ljósi á ólögmætar símhleranir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. vísir/gva
Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, lagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fram kröfu þess efnis að skýrslur verði teknar af sjö aðilum sem tengjast Al-Thani málinu svokallaða. Meðal þeirra eru rannsakendur sérstaks saksóknara. 

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ríkissaksóknari mótmælti kröfu Hreiðars og óskaði eftir að fá að skila inn greinargerð síðar í þessum mánuði. Lögmaður Ólafs Ólafssonar fjárfestis lagði fram sambærilega kröfu og fór fram á frekari gagnaöflun í málinu.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars, segir að verði skýrslutökurnar heimilaðar, muni það varpa frekara ljósi á ásakanir um ólöglegar símhleranir embættis sérstaks saksóknara. Hörður Felix kærði embættið til ríkissaksóknara á síðasta ári fyrir ólögmætar hlustanir á milli sín og skjólstæðings síns, Hreiðars Más.

Heimili héraðsdómur skýrslutökurnar verða þær notaðar í Hæstarétti Íslands þegar Al-Thani málið verður tekið fyrir 26 og 27 janúar á næsta ári.

Sakborningar í Al-Thani málinu hlutu þunga dóma. Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings hlaut fimm ára dóm, Ólafur Ólafsson þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson þriggja ára dóm.

Þeir áfrýjuðu allir niðurstöðunni til Hæstaréttar og bíður málið því meðferðar þar en málið er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi.




Tengdar fréttir

Segist fylgjast betur með símhlerunum

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir að embætti ríkissaksóknara fylgist betur með símhlerunum núna en eftirlitið hafi ekki verið til staðar áður.

Ríkissaksóknari fundar um meintar símhleranir

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari mætti á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um klukkan hálf tíu í morgun. Tilefni fundarins er umræða um símhleranir.

Kæran setti lífið úr skorðum

Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður hjá sérstökum saksóknara, segir að viðhorf sín til rannsókna efnahagsbrotamála séu gerbreytt eftir að hann sjálfur þurfti að svara fyrir kæru frá embættinu vegna brota á trúnaði í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×