Skoðun

Skynsamlegt að sameina Garðabæ og Álftanes

Gunnar Einarsson skrifar
Bæjarstjórnir Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness hafa báðar komist að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegur kostur að sameina þessi tvö sveitarfélög. Þess vegna ákváðu þær í júní sl. að mæla með því að kosið verði um sameiningu þeirra. Sú kosning fer fram 20. október næstkomandi í báðum sveitarfélögunum. Bæjarstjórnirnar voru sammála um að sameining sveitarfélaganna væri hagkvæmur kostur hvort sem horft væri til menningarlegra, skipulagslegra eða rekstrarlegra þátta.

Ég mæli með sameiningu

Stöðu minnar vegna hef ég að sjálfsögðu þurft að kynna mér málið mjög vel, fara yfir allar rekstrarforsendur og reyna að sjá allar hliðar málsins. Mín niðurstaða er sú að það sé mjög skynsamlegt að þessi tvö sveitarfélög sameinist. Sameinað sveitarfélag verður stærra og öflugra og stendur betur að vígi í frekari umræðu um sameiningu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur meira bolmagn til framkvæmda og möguleikar á rekstrarlegri hagkvæmni eru meiri. Auðveldara er að skipuleggja byggð þessara sveitarfélaga sem eina heild heldur en ef t.d. Reykjavík færi með skipulagsvaldið á Álftanesi, sem er líklegt að gerist verði málið fellt. Stundum heyrist sú umræða að skynsamlegt væri að fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni út á Löngusker rétt utan við strönd Álftaness. Hvað myndi það þýða fyrir Garðabæ og Álftanes?

Staðreyndir um skuldir og rekstur á Álftanesi

Skuldir og skuldbindingar Álftaness voru 7,2 milljarðar í árslok 2009. Þessari tölu var margoft slegið upp í öllum fréttamiðlum á þeim tíma þegar mest var rætt um þær ógöngur sem sveitarfélagið var komið í. Í hugum margra er þetta enn sú tala sem stuðst er við þegar rætt er um skuldastöðu sveitarfélagsins. Staðreyndin er sú að þessi tala verður komin niður í 3,2 milljarða í árslok 2012 verði sveitarfélögin sameinuð. Bókfærðar eignir Álftaness í árslok 2012 eru áætlaðar 3,4 milljarðar og því er eigið fé jákvætt sem því nemur. Einnig hefur mikil tiltekt verið gerð í rekstri sveitarfélagsins. Reksturinn hefur verið í góðu jafnvægi á árinu og er áætlað að tekjur umfram rekstrargjöld án fjármagnsliða verði 277 miljónir á árinu 2012, en fjármagngjöld vegna 3,2 miljarða skuldar eru áætlaðar 107 milljónir. Ég fullyrði að skuldastaða Álftnesinga, þ.e. 3,2 milljarðar, mun engin áhrif hafa á núverandi álögur eða þjónustustig fyrir íbúa í Garðabæ verði af sameiningu.

Framtíðarsýn

Það er nauðsynlegt að horfa fram í tímann þegar fjallað er um jafn stórt mál og sameiningu sveitarfélaga. Ég er þess fullviss að til lengri tíma litið sé sameining þessara sveitarfélaga afar hagkvæmur og skynsamlegur kostur. Með okkar góðu grönnum eigum við að byggja upp enn sterkara samfélag, þar sem traustur fjárhagur, lágar álögur, frjálst val íbúanna um margvíslega og fjölbreytta þjónustu, góða skóla og öflugt íþrótta- og tómstundastarf er haft að leiðarljósi. Að auki eigum við í sameinuðu sveitarfélagi að leggja áherslu á verndun okkar fjölbreyttu og verðmætu útivistarsvæða sem eiga varla sinn líka á höfuðborgarsvæðinu.

Upplýst ákvörðun

Kynningarátak um sameininguna hófst formlega með opnun vefsíðunnar www.okkarval.is. Þar er að finna margvíslegan fróðleik og þar er m.a. aðgengileg ítarleg greinargerð um sameininguna, auk þess sem hægt er að senda inn fyrirspurnir og hugleiðingar. Helsta markmið átaksins er að hvetja fólk til að kynna sér málið vel og taka upplýsta afstöðu. Ég hvet íbúa og aðra þá sem hafa áhuga á sveitarstjórnarmálum til að kynna sér vefinn og efni hans. Á næstu dögum og vikum verða kynningar í félögum í sveitarfélögunum, haldnir verða borgarafundir og að auki verður bæklingi dreift í öll hús.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×