Innlent

Skuldir útgerða í Grímsey um þrír milljarðar króna

Sveinn Arnarsson skrifar
Fyrirtækin þrjú eiga í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum hjá Íslandsbanka. Samanlagðar skuldir þeirra nema um þremur milljörðum króna. Kvótaeign fyrirtækjanna er þeirra verðmætasta eign.
Fyrirtækin þrjú eiga í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum hjá Íslandsbanka. Samanlagðar skuldir þeirra nema um þremur milljörðum króna. Kvótaeign fyrirtækjanna er þeirra verðmætasta eign. Fréttablaðið/Björn Þór Sigbjörnsson
Fyrirtækin þrjú sem stunda veiðar i Grímsey eiga í erfiðleikum með að standa í skilum við Íslandsbanka. Skuldir þeirra við bankann nema um þremur milljörðum króna og reksturinn stendur ekki undir svo háum skuldum.

Bent er á í skýrslu stjórnar tveggja útgerðarfélaganna sem fylgir ársreikningi ársins 2013 að „á meðan ekki er gengið til endanlegra samninga á milli bankans og félagsins viðheldur það óvissuástandi, sem staðið hefur í nánast sex ár og hefur veruleg áhrif á framtíðarsýn félagsins.“

Sjá einnig: „Ef samstaða næst ekki legst byggð líklega af í eynni“

Guðný Helga HErbertsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka.
Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segist ekki geta tjáð sig um viðskipti einstakra viðskiptavina við bankann. „Ég get þó staðfest að Íslandsbanki hefur um nokkurt skeið tekið þátt í viðræðum Akureyrarbæjar, Byggðastofnunar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og forsvarsmanna útgerðarfélaga í Grímsey um atvinnuþróun og tækifæri til frekari atvinnuuppbyggingar í eyjunni. Ljóst er að atvinnuþróun í Grímsey er viðkvæm og því hefur bankinn komið að umræðu um með hvaða hætti tryggja megi atvinnu til framtíðar á svæðinu.“

Þrjú útgerðarfélög eiga kvóta svo einhverju nemi í Grímsey, það eru fyrirtækin Borgarhöfði ehf., Sigurbjörn ehf. og Sæbjörg ehf. Fyrirtækin eru öll í viðskiptum við Íslandsbanka. Rekstur fyrirtækjanna er afar viðkvæmur og erfitt er fyrir fyrirtækin að greiða af lánum sínum. Gunnar Hannesson, einn útgerðarmanna í eynni, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að fyrirtækin væru að berjast við vanda sem varð til í hruninu 2008. Hann benti hins vegar á að eignir félaganna dygðu fyrir skuldum. 

Guðný Helga segir viðskiptavinum Íslandsbanka standa til boða margvísleg úrræði. „Íslandsbanki hefur frá efnahagshruni kappkostað að vinna með viðskiptavinum sínum með það að markmiði að styðja við atvinnuuppbyggingu. Viðskiptavinum sem átt hafa í greiðsluerfiðleikum hafa staðið til boða þau fjölmörgu úrræði, svo sem greiðsluaðlögun, skuldaaðlögun og Beina brautin í tilfelli fyrirtækja, sem í boði voru með það að markmiði að leggja sitt á vogarskálarnar við endurreisn efnahaglífsins eftir hrun.“ 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er markmiðið að reyna að koma á samvinnu útgerðanna til að viðhalda veiðum og vinnslu í eynni. Þó er vilji útgerðaraðila til að vinna saman talinn afar lítill og samskipti þeirra á milli lítil dagsdaglega.

Íbúafundur hefur verið boðaður þann 28. janúar næstkomandi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu ekki allir útgerðarmenn eyjarinnar mæta á fundinn. Guðný Helga segir forsvarsmenn Íslandsbanka vel geta hugsað sér að mæta á fundinn. „Ef okkar nærveru er óskað á íbúafundinum þá mætum við að sjálfsögðu,“ segir Guðný Helga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×