Innlent

Skuldin vegna Icesave greidd að verulegum hluta á næsta ári

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Mynd/Arnþór Birkisson

Íslenska sendinefndin hefur í dag reynt að greiða úr Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Fjármálaráðherra segir að hægt verði að greiða verulegan hluta Icesave-skuldarinnar á fyrri hluta næsta árs.

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sendi íslenskum stjórnvöldum bréf og þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri ríkisábyrgð á innstæðum, en málsmeðferð af hálfu ESA er nauðsynlegur undanfari dómsmáls fyrir EFTA-dómstólnum.

ESA gerði íslenskum stjórnvöldum grein fyrir þeirri afstöðu sinni bréflega. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að bréfinu hafi ekki enn verið svarað en það verði gert innan nokkurra daga. Sem stendur er íslenska samninganefndin undir forystu bandaríska lögmannsins Lee Buchheits í Hollandi að ræða við Breta og Hollendinga.

Hvorki bjartsýnni né svartsýnn

Spurður hvort hann sé vongóður svarar Steingrímur: „Hvorki né. Það er alla vega jákvætt að viðræðurnar eru í gangi. Þær endurspegla skulum við vona vilja beggja aðila til þess að reyna að finna lausn. En maður er orðinn löngu hættur að þora að vera hvort sem heldur bjartsýnn eða svartsýnn í þessu máli. Ég held það sé best að bíða niðurstöðunnar."

Steingrímur segir að í viðræðunum núna sé tekist á um vexti og á hvaða formi samkomulagið geti verið í. „Við vonumst auðvitað eftir eins hagstæðri niðurstöðu og mögulegt er."

Steingrímur segir að Bretar og Hollendingar hafi fyrr í vetur boðið upp á vaxtahlé en síðan hærri vexti í framhaldinu. Hann segir hins vegar jákvæð teikn á lofti.

„Það sem er að leggjast með okkur er að endurheimtur í búinu eru jafnt og þétt batnandi og umtalsvert laust reiðufé er til staðar í búinu. Þannig að það er ljóst að þegar útgreiðslur eru mögulegar, sem verður vonandi á fyrrihluta næsta árs, þá verður hægt að greiða verulega inná þennan reikning. Það mun auðvitað hjálpa til í sambandi við vaxtakostnað og málið í heild,“ segir Steingrímur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×