Innlent

Skuldar ríkissjóði 17 milljarða króna vegna framkvæmda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vegagerðin skuldar ríkissjóði 17 milljarða króna sem hefur safnast upp frá árinu 2008 þar sem markaðar tekjur stofnunarinnar, eins og bensíngjald, olíugjald og þungaskattur ökutækja, hafa ekki staðið undir útgjöldum til vegamála. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemd við fyrirkomulagið oftar en einu sinni. 

Stór hluti tekna Vegagerðarinnar kemur frá svokölluðum mörkuðum tekjustofnum sem eru gjöld eins og bensíngjald, olíugjald og þungaskattur. Þessi gjöld fara eftir sérstakri gjaldskrá og fela í sér breytilegar tekjur fyrir ríkissjóð.

Gjaldskráin hefur ekki verið hækkuð nægilega mikið í gegnum árin og tekjur Vegagerðarinnar af þessum stofnum hafa ekki staðið undir framkvæmdum. Nú er svo komið að uppsafnaður halli vegna tekna af mörkuðum tekjustofnum nemur 17 milljörðum króna. Þetta eru peningar sem Vegagerðin skuldar ríkissjóði.

Hreinn Haraldsson forstjóri Vegagerðarinnar staðfesti þetta í samtali við Stöð 2. Hann sagði að fjárhæðin væri uppsöfnuð frá árinu 2008. Hreinn sagði að Ríkisendurskoðun hefði nýlega gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag í fjárlagagerðinni. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur Ríkisendurskoðun gert athugasemdir við fyrirkomulagið oftar en einu sinni. 

Skella skuldinni á fjármálaráðuneytið

Hannes Már Sigurðsson fjármálastjóri Vegagerðarinnar sagði að fjármálaráðuneytið hefði túlkað fjárlögin þannig frá 2008 að Vegagerðin hefði ekki aðra tekjustofna en markaðar tekjur nema í undantekningartilvikum. Þannig hefði fjármálaráðuneytið búið til stóra skuld hjá Vegagerðinni. Fjármála- og efnahagsráðuneytið stýrir gjaldskrá markaðra tekna, eins og bensíngjalds. Hannes sagði að hefði ráðuneytið hækkað gjaldskrána eins og aðrar gjaldskrár markaðra tekna þá væru þessar tekjur að skila Vegagerðinni 25-26 milljörðum króna árlega en ekki 16 milljörðum króna.

Þær upplýsingar fengust hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að unnið væri að endurskoðun fjárreiðulaga til að koma í veg fyrir að þetta. Fjárlaganefnd Alþingis hefði þegar lagt fram frumvarp þar sem lagt væri til að horfið væri frá mörkuðum tekjum. Þá væri einnig gert ráð fyrir því í nýju frumvarpi fjármálaráðherra um opinber fjármál. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×