Sport

Skoraði ótrúlega körfu í blakleik | Myndband

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ótrúlegt atvik átti sér stað í blakleik á Íslandi á dögunum þegar Róbert Karl Hlöðversson, leikmaður Stjörnunnar, varðist skelli frá leikmanni Þróttar Neskaupsstað.

Það fór ekki betur en svo að boltinn fór beint ofan í körfu sem hékk upp á vegg í töluverðari fjarlægð frá leikmanninum.

„Þetta gerðist í þriðju hrinu í leik á móti Þrótti Neskaupsstað en leikurinn fór fram á heimavelli Þróttara,“ sagði Róbert í samtali við Vísi.

„Þetta var bara hrein karfa og virkilega glæsilega þó ég segi sjálfur frá. Tveir bræður mínir eru í Þrótti Neskaupsstað og annar þeirra, Hlöðver Hlöðversson, var að smassa á mig þegar þetta gerðist. Ég ver boltann en hann skýst í burtu og fer beint ofan í körfuna.“

„Ég tek bara eftir því að félagar mínir í liðinu fagna gríðarlega, en ég missti af því þegar boltinn fór ofan í körfuna.“

„Svona gerist stundum á æfingum hjá okkur en kannski ekki úr svo löngu færi. Við töpuðum reyndar leiknum en þetta eru frekar þekktar viðureignir í okkar fjölskyldu. Við vorum fimm bræður inn á vellinum í leiknum. Ég á tvo bræður í Þrótti Neskaupsstað og síðan erum við þrír hjá Stjörnunni.“

Þeir Hlöðver Hlöðversson og Geir Sigurpáll Hlöðversson eru leikmenn Þróttar á meðan þeir Róbert Karl Hlöðversson, Vignir Hlöðversson og Ástþór Hlöðversson eru leikmenn Stjörnunnar. Það er því mikill bræðraslagur þegar þessi lið mætast.

Aðspurður hvort Róbert ætli sér ekki að skipta yfir í körfuboltalið Stjörnunnar svaraði hann því neitandi.

„Stjörnumenn eru allir að koma til í körfunni og þeir þurfa ekkert á minni hjálp að halda.“

Hér að ofan má sjá myndband af atvikinu en sjón er sögu ríkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×