Innlent

Skólamáltiðir í Fjallabyggð: Sneru við ákvörðun nefndarinnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fræðslu- og frístundanefnd lagði til að gengið yrði að tilboði Kaffi Rauðku.
Fræðslu- og frístundanefnd lagði til að gengið yrði að tilboði Kaffi Rauðku.
Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti ekki afgreiðslu fræðslu- og frístundanefndar á verðtilboðum í mat fyrir grunnskólabörn bæjarfélagsins og ákvað heldur að semja við lægstbjóðanda.

Nefndin samþykkti á fimmtudaginn tilboð Kaffi Rauðku, sem var 25.380 krónum hærra á hvert barn í sveitarfélaginu árlega en lægsta tilboðið. Um 205 nemendur eru í skólanum og því var tilboð Kaffi Rauðku um 5,3 milljónum hærra á ári en lægsta tilboðið.

Mikil ólga var íbúum bæjarins og margir lýstu yfir óánægju sinni með ákvörðun fræðslu- og frístundanefndar. Í samtali við Vísi í gær sagði formaður nefndarinnar að frekar hafi verið horft til þess sem hún kallaði fagleg sjónarmið, frekar en að horfa á verðið þegar hún skoðaði tilboðin sem bárust. Því hafi verið ákveðið að samþykkja tilboð Rauðku, þrátt fyrir hærra verð.  Matreiðslufólk Rauðku sé faglært og að staðurinn hafi næringafræðinga á sínum snærum.

Í framhaldi af afgreiðslu fræðslu- og frístundanefndar taldi bæjarráð rétt að bóka eftirfarandi klausu á fundi sínum í gær.

„Bæjarráð leggur áherslu á að rökstuðningur fylgi ávallt tillögum fagnefnda til bæjarráðs eða bæjarstjórnar og fylgi þeim reglum sem yfirstjórn bæjarfélagsins setur. Bæjarráð telur eðlilegt og rétt að taka lægsta tilboði í samræmi við innkaupareglur bæjarfélagsins.“

Í kjölfar fundarins fól bæjarráð deildarstjóra fjölskyldudeildar að undirrita samning við lægstbjóðendur - annars vegar fyrirtækið Allann sem mun sjá um máltíðir á Siglufirði og Höllina sem útvegar máltíðir til skólabarna á Ólafsfirði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×