Innlent

Skjálftavirkni gæti örvast

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Skýrsla frá ON um jarðsjálfta var kynnt fyrir Ölfus.
Skýrsla frá ON um jarðsjálfta var kynnt fyrir Ölfus. vísir/vilhelm
Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins Ölfuss var í gær kynnt skýrsla frá Orku náttúrunnar vegna frummats á jarðskjálftahættu vegna niðurdælingar í holur HE-23, 25 og 38 á Skarðsmýrarfjalli. Nefndin veitti framkvæmdaleyfi fyrir tengingu borholna HE-23, HE-25 og HE-38 á borsvæði við fyrirhugaða flutningsæð fyrir skiljuvatn að niðurdælingarholum HE-37 og HE-38.

Með þessari framkvæmd er ekki verið að auka við framleiðslu Hellisheiðarvirkjunar eða magn skiljuvatns, en tenging á þessum borholum sem niðurrennslisholum stækkar svæðið til niðurrennslis og eykur afköst núverandi niðurrennslissvæðis. Fyrirhugað er að setja hóflegt magn af skiljuvatni í holurnar til að byrja með til að veita þrýsti­stuðning við nærliggjandi vinnsluholur, en á sama tíma að komast hjá því að skammhlaup verði milli hola og skyndilegar breytingar í eiginleikum vinnsluhola. Verklagsreglur Orkustofnunar kveða á um að unnið sé frummat þegar nýta á borholur til niðurdælingar.

Tilgangurinn er að fá faglegt mat á hvort líklegt sé að niðurdæling affallsvökva í borholur geti orsakað jarðskjálfta sem valdi hættu eða verulegum óþægindum. Við borun á holunum HE-23 og HE-25 sem boraðar voru haustið 2006 varð ekki vart við jarðskjálftavirkni. Niðurstöður frummats benda til að einhver skjálftavirkni gæti örvast í suðurhluta fjallsins, einkum frá holu HE-25.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×