Innlent

Skipverjinn á Grænlandi fer til sálfræðings til að vinna úr áfallinu

atli ísleifsson skrifar
Frá Nuuk í Grænlandi.
Frá Nuuk í Grænlandi. Vísir/FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON
Grænlenski skipverjinn, sem var sleppt úr haldi í byrjun mánaðar eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi og í einangrun í tvær vikur vegna gruns um að tengjast hvarfi Birnu Brjánsdóttur, dvelur nú heima hjá kærustu sinni og fer til sálfræðings til að vinna úr áfallinu.

Unnsteinn Örn Elvarsson, lögmaður skipverjans, segir í samtali við grænlenska fjölmiðilinn Sermitsiaq að það taki mjög á ungan mann að vera í gæsluvarðhaldi í landi sem hann þekkir lítið og þar sem hann talar ekki málið. „En nú er hann heima í kunnuglegum aðstæðum.“

Unnsteinn hefur gagnrýnt íslenska fjölmiðla vegna nafn- og myndbirtingar eftir að skipverjarnir tveir voru handteknir í tengslum við mál Birnu, sem hvarf þann 14. janúar síðastliðinn. Lík hennar fannst svo í fjörunni við Selvogsvita þann 22. janúar.

Unnsteinn segir að fjölskylda hans og kærasta hafi aldrei efast um sakleysi mannsins.

Lögmaðurinn segir að á þeim tíma sem skipverjinn sat í gæsluvarðhaldi hafi þeir rætt saman tvisvar eða þrisvar á dag. Nú líði hins vegar heilu dagarnir milli þess sem þeir ræði saman í síma.

Gæsluvarðhald rennur út á morgun

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir hinum skipverjanum, en sá er grunaður um að hafa ráðið Birnu bana. Grímur Grímsson, sem stýrir rannsókn lögreglu, segir að sú ákvörðun ætti að liggja fyrir í dag eða í fyrramálið.

Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir skipverjanum rennur að óbreyttu út á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×