Skoðun

Skemmd kartafla leiðarahöfundar

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir skrifar
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í gær var á einkennilegum slóðum. Í það minnsta fyrir miðil sem kennir sig við fréttir. Svo virðist sem leiðarinn snúist fyrst og fremst um að reyna að afsanna fréttagildi þeirra upplýsinga sem Víglundur Þorsteinsson hefur nú lagt fram og margir hafa talið að gefi tilefni til að skoða mál er varðar endurreisn bankakerfisins betur. Undir það hefur forsætisráðherra tekið og það virðist leiðarahöfundurinn ekki skilja.

Reyndar er það svo að þeir sem hafa áhuga á að setja sig inn í efnisatriði málsins verða litlu nær af lestri leiðarans sem virðist vera einhvers konar tilraun til að framkvæma pólitíska greiningu á hundavaði.

Alvarleg ásökun

En lítum aðeins á efnisatriði málsins. Víglundur Þorsteinsson hefur lagt fram gögn sem innihalda bréf, eigin greinargerð og stofnúrskurði Fjármálaeftirlitsins fyrir nýju bankana. Telur Víglundur að gögnin sýni fram á að stórfelld og margvísleg lagabrot hafi verið framin eftir að ákvörðunum FME um stofnúrskurði nýju bankanna í október 2008 var breytt. Þannig hafi erlendir hrægammasjóðir hagnast um 300-400 milljarða króna á kostnað þjóðarinnar. Þetta eru alvarlegar ásakanir og margir telja eðlilegt að málið fái einhvers konar efnislega meðferð. Varla getur leiðarahöfundur verið á móti því?

Það hefur verið skoðun margra, meðal annars fyrrverandi forstjóra FME, að bankarnir hafi verið afhentir kröfuhöfum á allt of lágu verði. Fyrir vikið hafi einstakt tækifæri glatast til að afskrifa að fullu hluta af kröfum sem þess í stað lentu með fullum þunga á íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Það lítur einnig einkennilega út ef fjármálaráðuneytið, undir forystu þáverandi fjármálaráðherra, hafi útbúið samning um stofnefnahag nýja Landsbankans með þeim hætti að það veikti krónuna og veitti kröfuhöfum tangarhald á bankanum svo ekki var nokkur leið að standa við greiðslu í erlendri mynt á tilsettum tíma. Núverandi stjórnvöld hafa þurft að grípa inn í til að fjármálastöðugleika sé ekki ógnað.

Vald tekið af FME

Er það virkilega svo að leiðarahöfundur hafi engan áhuga á að upplýst sé á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin að taka vald af FME, eins og kveðið var á um í neyðarlögunum, og færa það til fjármálaráðherra sem færði kröfuhöfum bankanna á einni nóttu? Hefur ekki verið efnt til eins og einnar skýrslu af minna tilefni?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×