Innlent

Sjúklingar hræddir, kvíðnir og reiðir vegna verkfallsins

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum segir sjúklinga sína vera hrædda og reiða vegna verkfalla á spítalanum. Hann segist sorgmæddur yfir því að samfélagið hafi leyft ástandinu að ganga svona langt og að sjúklingar hans, sem eigi oft ekki langt eftir, eyði nú tíma sínum í það að hafa áhyggjur af áhrifum verkfallanna.

Komi til ótímabundins verkfalls hjúkrunarfræðinga á miðvikudaginn í næstu viku kemur það til með að hafa mikil áhrif á starfsemi Landspítalans. Innan við helmingur þeirra hjúkrunarfræðinga sem venjulega starfa á dag- og göngudeildum, sem sinna krabbameinsjúklingum, verður við störf á meðan á verkfalli stendur. Þá fækkar hjúkrunarfræðingum á vakt á legudeild einnig þar sem aðeins einn hjúkrunarfræðingur verður til að mynda á vakt á nóttunni.

Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir krabbameinslækninga á spítalanum, segir sjúklingana hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Þá segir hann verkfall Bandalags háskólamanna á spítalanum síðustu vikur hafa haft áhrif á marga sjúklinga.

„Þeir eru hræddir. Þeir eru kvíðnir. Þeir eru margir reiðir,“ segir Gunnar Bjarni. „Það eru allskonar tilfinningar sem bærast í hugum fólks. Þetta er oft fólk sem á jafnvel ekki langt eftir og það er að eyða núna tíma í það að hafa áhyggjur af þessum hlutum. Mér finnst í rauninni ótrúlegt, og í er í rauninni sorgmæddur yfir því, að við sem samfélag, hverju svo sem um er að kenna, höfum leyft þessu að ganga svona langt.“  

Sótt verður um undanþágur til að tryggja betri mönnun meðan á verkfalli hjúkrunarfræðinga stendur. Þjónustan sem veitt verður mun þó alltaf vera skert frá því sem nú er. Gunnar Bjarni óttast það ástand sem geti skapast á spítalanum ef af verkfallinu verður. Sérstaklega í ljósi þess að verkfall BHM hefur síðustu vikur haft mikil áhrif á starfsemi spítalans.

„Við erum að reyna að reka hérna gott heilbrigðiskerfi og það byggir á því að það er tekið mikið af rannsóknum og svo framvegis og nú er búið að hálflama það. Það er í rauninni búið að stefna lífi sjúklinga í hættu með því og nú þegar við bætist svona ofboðslega mikilvæg stétt eins og hjúkrunarfræðingar, sem eru í beinu sambandi við sjúklinga og umönnun þeirra, þá er augljóst að lífi þeirra er stefnt í hættu með þessu,“ segir Gunnar Bjarni.


Tengdar fréttir

Sjúklingar sendir heim ef til verkfalls kemur

Forstjóri Landspítalans segir að um eitt hundrað legurýmum á Landspítalanum verði lokað ef til verkfalls hjúkrunarfræðinga kemur í næstu viku og sjúklingar sendir heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×