Innlent

Sjómenn fella kjarasamning: „Það eru aðgerðir framundan“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjómenn hafa verið samningslausir frá ársbyrjun 2011
Sjómenn hafa verið samningslausir frá ársbyrjun 2011 vísir/JSE
Félagsmenn Sjómannasambands Íslands felldu í dag kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem undirritaður var 24. júní síðastliðinn. Kosningin var afgerandi en 66 prósent félagsmanna höfnuðu samningum í kosningum um hann. Formaður Sjómannasambandsins segir það blasa við að verkfallsaðgerðir séu framundan.

Á kjörskrá voru 1739 sjómenn og af þeim kusu 670 eða 38,5 prósent þeirra sem voru á kjörskrá. Já sögðu 223 eða rúm 33 prósent, nei sögðu 445 eða rúm 66 prósent. Þrír seðlar voru auðir og ógildir.

Í samtali við Vísi segir Valmundur Valmundsson að nú muni samninganefnd sjómanna verði kölluð saman í næstu viku. Hún muni taka ákvörðun um framhaldið og segir Valmundur að sér þyki það einsýnt að boðuð verði atkvæðagreiðsla um aðgerðir.

„Menn eru eru bara ekki sáttir og niðurstaðan er svo afgerandi. Það eru tveir þriðju félagsmanna sem fella samninginn. Það þýðir bara eitt, það eru aðgerðir framundan,“ segir Valmundur.

Valmundur segir að fyrst og fremst séu sjómenn óánægðir með hvernig fiskverðið ræður hlut sjómanna og hvernig það sé reiknað út. Sjómenn hafa verið án samnings frá árinu 2011. Nýr samningur átti að gilda til 2018 og á samningstímanum átti að ráðast í heildarendurskoðun á samningum sjómanna.


Tengdar fréttir

Sjómenn og SFS loks búin að semja

Kjarasamningurinn er framlenging af núgildandi samningi. Atkvæðagreiðsla hefst bráðlega og mun ljúka 8. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×