Innlent

Sjáðu viðbætta sykurinn í matnum þínum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir/Sykurmagn.is
Landlæknisembættið hefur opnað vefsíðu sem sýnir magn viðbætts sykurs í matvælum. Á vefnum, Sykurmagn.is, birtist sykurmagnið með myndrænum hætti í formi sykurmola. Þannig mát til að mynda sjá að í 300 grömmum af blandi í poka, hinu klassíska laugardagsnammi, er jafn mikill viðbættur sykur og í 75 sykurmolum.

Sykurinn í nammipoka.Vísir/Sykurmagn.is
Vefurinn var opnaður í tilefni af Tannverndarvikunni 2015 sem hófst í dag. 

Á vefnum er líka að finna samanburð á vorum. Á einni mynd eru sýndar tíu mismunandi gerðir morgunkorns og sykurmolafjöldi sem samsvarar einni 30 gramma skál af viðkomandi morgunmat. Þar sést að í Cocoa Puffs eru fimm og hálfur sykurmoli en í íslenska morgunkorninu Bygga er engin sykur. Á sömu mynd sést að meiri sykur er í Fitness og Special K en í Cheerios og Corn Flakes.

Talsverður sykur getur verið í drykkjarvörum.Vísir/Sykurmagn.is
Viðbættur sykur er sá sykur sem bætt er í matvörur við framleiðslu, að því er segir á vefsíðunni. „Það er ekki bara hvítur sykur sem telst til viðbætts sykurs, heldur einnig hrásykur, púðursykur, melassi, síróp, agavesíróp, glúkósi (þrúgusykur), ávaxtasykur (frúktósi), og náttúrulegan sykur sem er til staðar í hunangi svo eitthvað sé nefnt,“ segir enn fremur á vefnum. 

Fleiri vörur er hægt að skoða á Sykurmagn.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×