Innlent

Sjá í fyrramálið hvort þrýstingur hafi minnkað

Samúel Karl Ólason skrifar
„Okkur skilst að heldur hafid dregið úr gosinu. Það er reyndar lítið skyggni þarna eins og er þannig að við vitum ekki nákvæmlega stöðuna á því. Flugvélin TF-Sif er yfir svæðinu og við fáum nákvæmar upplýsingar á eftir,“ segir Víðir Reynisson hjá Almannavörnum í fréttum Bylgjunnar klukkan fjögur.

„Í fyrstu yfirferð þeirra þá hafði lítil breyting orðið á hraunstreyminu að minnsta kosti. Það segir okkur að það sé ekki mikil ákyrrð í þessu eins og er.“

Víðir segir Almannavarnir hafa áhyggjur af miklu gasmagni á svæðinu.

„Vísindamenn sem eru að vinna á svæðinu eru með búnað, bæði til að verja sig og mæla styrkleikan. Það var meðal annars þess vegna sem þeir færðu sig af svæðinu því styrkleikurinn var að mælast mjög hár þarna. Það þótti öruggara að vera ekki mjög nálægt þessu.“

Víðir segir óvissuna varðandi jarðhræringarnar vera töluverðar.

„Við fáum mælingarnar sem verið er að vinna núna og síðan GPS mælingar í fyrramálið. Þá fyrst sjáum við hvort þetta gos hafi haft einhver veruleg áhrif á heildarmyndina. Það er að segja hvort að þrýsingurinn í bergganginum hafi minnkað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×