Innlent

Sirkustjaldið Jökla komið til landsins

Bjarki Ármannsson skrifar
Tölvuteikning af tjaldinu sem nú er komið til landsins.
Tölvuteikning af tjaldinu sem nú er komið til landsins. Mynd/Sirkus Íslands
Fyrsta alíslenska sirkustjaldið er komið til landsins. Meðlimir Sirkusar Íslands tóku á móti því í vikunni en það er engin smá smíði, 30 metrar í þvermál, 13 metrar á hæð og getur rúmað 400 manns.

Það mun koma til með að bera nafnið Jökla, en það nafn sigraði í samkeppni á vegum sirkussins. Rúmlega hundrað tillögur bárust og kom sigurtillagan frá þeim Kolbrúnu Nadiru Árnadóttur og Söndru Önnudóttur.

„Okkur fannst Jökla henta tjaldinu okkar afskaplega vel,“ segir sirkusstjórinn Lee Nelson í tilkynningu. „Nafnið er sterkt og íslenskt. Jökla hefur vísun í íslenska náttúru sem er stórbrotin, fjörug og sker sig úr, alveg eins og Sirkus Íslands. Að auki hentar nafnið útliti tjaldsins mjög vel en það minnir einna helst á eldspúandi jökul.“

Nafnið Jökla er á íslenskri mannanafnaskrá og hefur Sirkus Íslands ákveðið að allar þær sem bera fornafnið Jökla geti sótt sýningar í tjaldinu ókeypis til æviloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×