Innlent

Silungur úr eldi á land úr fjórum veiðiám

Svavar Hávarðsson skrifar
Stærri fiskurinn ber eldisupprunans greinileg merki á sporði og uggum.
Stærri fiskurinn ber eldisupprunans greinileg merki á sporði og uggum. mynd/orri
Regnbogasilungur hefur veiðst á skömmum tíma í fjórum veiðiám á Norðurlandi og Vestfjörðum. Ljóst er að um íslenskan eldisfisk er að ræða.

Fyrir skemmstu veiddist regnbogasilungur í Eyjafjarðará, en hún er ein þekktasta bleikjuveiðiá landsins. Um helgina veiddist einnig regnbogasilungur í Fljótaá, og heimildir Fréttablaðsins greina einnig frá regnboga veiddum í Lambagilsá við Dýrafjörð síðasta haust og í Fnjóská í fyrrasumar.

Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, hefur Fljótaá á leigu í gegnum félagið Veiðiklúbb Íslands. Hugmynd félagsins og bænda í Fljótunum er að byggja upp grunnstofna árinnar, en Fljótaá er ein gjöfulasta bleikjuveiðiá á Íslandi, auk þess sem þar veiðist vel af stórvöxnum laxi.

Orri segir fréttir af regnbogasilungi staðfesta að varnaðarorð eru sannarlega ekki úr lausu lofti gripin. Fyrir þá sem vilja byggja upp veiðiperlu á náttúrulegum stofnum, eins og í Fljótaá, geti eldisfiskur verið bein ógn við stofnana svo ekki sé talað um höggið sem ímynd viðkomandi veiðivatns fær við aðskotafisk sem þennan. Ímynd ánna stafi bein ógn af því ef silungur og lax úr eldi veiðist ítrekað, eins og nýleg dæmi bendi til að verði þróunin.

Ekkert er staðfest um uppruna regnbogasilunganna sem veiðst hafa í fyrra og undanfarna daga. Fiskurinn úr Fljótaá hefur verið sendur til rannsóknar hjá Veiðimálastofnun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×