Íslenski boltinn

Sigurbergur og Túfa bestir í fyrri hluta Inkasso-deildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurbergur Elísson tekur við verðlaununum frá Georg Andersen, framkvæmdastjóra Inkasso.
Sigurbergur Elísson tekur við verðlaununum frá Georg Andersen, framkvæmdastjóra Inkasso. vísir/hanna
Sigurbergur Elísson, leikmaður Keflavíkur, var í dag útnefndur besti leikmaður fyrri hluta Inkasso-deildarinnar en þetta er val íþróttadeildar 365 og Inkasso sem er styrktaraðili deildarinnar.

Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, þjálfari KA, var svo útnefndur besti þjálfari fyrri hluta Inkasso-deildarinnar en hann stefnir með norðanmenn upp í efstu deild eins og staðan er þegar mótið er hálfnað.

Sigurbergur hefur spilað frábærlega fyrir Keflvíkinga sem eru í þriðja sæti með 21 stig eftir ellefu umferðir. Hann er næst markahæstur í deildinni með sex mörk og þá hefur hann verið duglegur að leggja upp fyrir félaga sína.

Þessi hrikalega öflugi 24 ára gamli framherji hefur spilað allan sinn feril með Keflavík en hann fékk fyrst tækifæri 2007 þegar hann varð yngsti leikmaðurinn til að spila leik í efstu deild á íslandi. Hann á nú að baki 78 leiki í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og bikar fyrir Keflvíkinga.

Srdjan Tufegdzic tók við KA-liðinu í fyrra þegar ljóst var að Akureyrarliðið væri ekki á leið upp og Bjarni Jóhannsson var rekinn. Hann fór á mikinn skrið með KA og var á endanum ekki langt frá því að koma liðinu upp.

Það er skýr krafa hjá KA að komast upp í ár enda hefur miklu verið til tjaldað. Túfa er heldur betur að skila góðu verki en KA-liðið er á toppnum þegar mótið er hálfnað með 26 stig og aðeins fengið á sig átta mörk.

Rætt verður við þá Sigurberg og Túfa í kvöldfréttum Stöðvar 2 en leikur Fram og KA verður svo í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×