Innlent

Efna til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær. Mynd/Aðsend
Fjölmennur baráttufundur félagsmanna SFR stéttarfélags og Sjúkraliðafélags Íslands sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) var haldinn síðdegis í gær. Á fundinum voru kjör og réttindi félagsmanna til umræðu og staðan í kjaraviðræðum félaganna við SFV.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að húsfyllir hafi verið á Grettisgötunni þar sem fundurinn var haldinn og stóð fólk meðfram göngum út á götu. Þá segir einnig að mikill hiti hafi verið í fundarfólk. Því flestir séu orðnir afar langeygðir eftir kjarabótum fyrir þennan hóp sem telur um fimm hundruð manns.

Einróma sameiginleg ákvörðun var tekin á fundinum um að félögin efni til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. „Enda hafa viðsemjendur ekki sýnt neinn vilja til þess að koma til móts við kröfu félaganna og mikil óánægja er með gang mála,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að félögin hafi verið í samstarfi um kjarasamningsviðræðurnar undanfarið en lögð hefur verið áhersla á að bæta kjör starfsmannanna meðal annars með því að ná fram sambærilegu jafnlaunaátaki og ríkisstjórnin stóð fyrir vegna hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum.

„Starfsfólk á hjúkrunarheimilunum naut ekki góðs af því átaki á sínum tíma og því hefur sú krafa verið sett í forgang í þessum samningum sem fyrsta skref í leiðréttingum launa og kjara. Þá hefur einnig vantað kafla um réttindi og skyldur inn í kjarasamningana við SFV, en Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa alfarið neitað að semja um réttindi og skyldur starfsmanna. Félögin eru einhuga um að slíkur rammi sé nauðsynlegur og forsenda þess að hægt sé að byggja upp gott starfsumhverfi.“

Félögin munu leita eftir umboði félagsmanna til verkfallsaðgerða ef samningaviðræður skili ekki áþreifanlegum árangri á næstu dögum.

Þau fyrirtæki sem tilheyra Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) eru: Ás, Dalbær, Eir, Garðvangur, Grund, Hlévangur, HNLFÍ, Hornbrekka, Hrafnista Reykjavík, Hrafnista Hafnarfirði, Hrafnista  Kópavogi, Hrafnista Reykjanesi, Kumbaravogur, Lundur, Mörk, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, Skjól, Skógarbær, Sóltún og Sunnuhlíð/Vigdísarholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×