Innlent

Sextíu og fimm vændismál bíða afgreiðslu

Linda Blöndal skrifar
Lögreglu hafa borist 68 mál vegna vændiskaupa það sem af er árinu og hafa sex manns hlotið fangelsisdóma í tengslum við kaup á vændi síðan þau voru gerð refsiverð. Fleiri brot liggja að baki hjá þeim sem fá fangelsisdóm þar sem sektargreiðslum er beitt í öllum dómum sem snúa að vændiskaupum.

Ákvæði var sett í Hegningarlög árið 2009 um að kaup á vændi yrðu refsiverð og þannig er kaupandinn dreginn til ábyrgðar en ekki seljandi vændisins og getur refsing verið sekt eða fangelsi allt að einu ári. Nú meira en fimm árum síðar hefur lögreglu borist 162 mál vegna vændiskaupa en 65 málum er ólokið. Af þeim tæplega hundrað sem eru afgreidd þá enduðu 52 með ákæru, 6 fengu fangelsisdóma og 43 einstaklingar voru sektaðir en sýknað var í 3 málum.

Eingöngu sektað

Þar sem eingöngu er dæmt fyrir kaup á vændi fá menn sektardóm en fleiri brot liggja að baki hjá þeim fengu fangelsidóm. Enginn hefur því farið í fangelsi vegna vændiskaupa einna og sér. Sektum er eingöngu beitt en þær hafa ekki verið háar eða á bilinu 80 til hundrað og tuttugu þúsund krónur.  Langstærsti hluti vændismála eða rúm áttatíu prósent virðast snúast eingöngu um kaup á vændi. 

Margbrotinn vændisheimur

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur við Háskóla Íslands, bendir á að heimur vændis sé margbrotinn og ætla megi að ástæða fyrir ástundun þess sé ekki alltaf sú sama og til dæmis séu til hagsmunasamtök vændisfólks víða um heim. Sumt vændi tengis mansali en ekki allt, segir hann.

Sá mikli fjöldi vændismála sem komið hefur inn á borð lögreglu það sem liðið er af árinu, eða 86 mál segir ekki endilega til um að meira sé keypt af vændi. Fjöldinn er nánast orðinn sá sami og allt árið í fyrra en þá hafði slíkum málum fjölgað gífurlega á milli ára. Spurningin er frekar sú hvort að harðari refsingar séu leiðin til að fækka kaupum á vændi. Helgi segir erlendar rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki, ekki séu endilega tengsl þar á milli þar sem vændisheimurinn lýtur fleiri lögmálum en sem einföld hegningarlög nái yfir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×