Innlent

Sex mánaða nálgunarbann: Réðst á móður nýfæddra dætra að viðstaddri eigin móður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn þrýsti á sauma eftir keisaraskurð og sló konu sína sem var með nokkurra vikna gamlar dætur þeirra í fanginu.
Maðurinn þrýsti á sauma eftir keisaraskurð og sló konu sína sem var með nokkurra vikna gamlar dætur þeirra í fanginu. vísir/stefán
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun lögreglustjóra að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði vegna ofbeldis í garð eiginkonu sinnar og nýbakaðar barnsmóður. Er maðurinn talinn hafa lagt hönd á konuna, þrýst á sauma á maga hennar í kjölfar nýafstaðins keisaraskurðar en auk þess að slegið hana og rifið í hár að viðstaddri eigin móður og dætrum. Málið var kært til Hæstaréttar sem vísaði því frá.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað að maðurinn skildi sæta nálgunarbanni mánudaginn 4. maí. Degi fyrr hafði lögregla verið kölluð að heimili móður mannsins eftir tilkynningu frá foreldrum konunnar. Óttuðust þau um líðan dóttur sinnar sem þau sögðu vera í ofbeldisfullu sambandi.

Þrýsti á sauma eftir keisaraskurð

Maðurinn og konan, sem eru hjón, eignuðust dætur fyrir nokkrum vikum, og gekkst konan undir keisaraskurð. Að hennar sögn lágu þau í rúmi á heimili móður mannsins þegar hann þrýsti á sauma sem konan var með á maganum eftir keisaraskurð. Konuna verkjaði, reiddist manninum og sagðist vilja fara af heimilinu. Tók hún dætur sínar í fangið og gerði sig klára til að hringja símtal, biðja um að verða sótt, þegar maðurinn brást illa við.

Maðurinn á að hafa rifið símann úr sambandi, öskrað á hana og rifið í hár hennar. Á meðan hún hafi haldið á dætrum hennar hafi hún rifið hana niður í gólfið á hárinu. Þar sem hún lá hafi hann slegið hana í andlitið með flötum lófa. Móðir mannsins tók þá dæutrnar en maðurinn hélt áfram að rífa í hár konunnar og slá í andlitið. Lögregla var kölluð á vettvang og maðurinn handtekinn. Sjá mátti áverka bæði í andliti konunnar og höndum mannsins að því er segir í greinagerð lögreglustjóra.

Konan sagði við lögreglu að maðurinn hefði áður lagt á sig hendur. Hann hefði meðal annars ógnað henni á fæðingardeildinni eftir að dæturnar fæddust. Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem var á vakt umrætt skipti kannaðist við það. Þá fullyrða foreldrar konunnar að samband þeirra hafi einkennst af kúgun og ofbeldi. Óttuðust þau mjög um konuna og dætur hennar. Þá hafi maðurinn sent systur konunnar ljósmynd af eiginkonu sinni í kynferðislegum stellingum. Þá lægju fyrir sms-samskipti mannsins við tengdamóður sína þar sem hann viðurkenni að hluta háttsemi sína.

Neitaði árás en viðurkenndi myndsendingu

Maðurinn neitaði að hafa ráðist á eiginkonu sína þann 3. maí en kunni engar skýringar á áverkunum á andliti konunnar. Hann viðurkennti þó að hafa brotið síma og tölvu sem eiginkona hans var með á fæðingardeildinni. Sömuleiðis viðurkenndi hann að hafa sent systur eiginkonu sinnar umrædda mynd. Móðir mannsins neitar hins vegar að tjá sig við lögreglu.

Þá kemur fram í greinagerð lögreglustjóra að lögreglu hafi borist skilaboð sem maðurinn hafi sent eiginkonu hans þann 6. maí eða tveimur dögum eftir að nálgunarbannið tók gildi. Skilaboðin beri með sér að konunni stafi mikil ógn af manninum. Ljóst sé að hún hafi und­an­farið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu á sama tíma og hún sé að jafna sig eftir fæð­ingu tveggja barna og hefði þurft á öllum hans stuðningi að halda. Þyki maðurinn hafa raskað mjög heimilisfriði eiginkonu sinnar og barna þeirra með háttsemi sinni.

Héraðsdómur féllst á að friðhelgi konunnar verði ekki verndað með öðrum hætti en með nálgunarbanni. Maðurinn má ekki koma á eða vera í námunda við heimili hennar sem nemur 50 metra radíus umhverfis húsið. Þá má hann ekki veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana á annan hátt. Hæstiréttur vísaði kæru mannsins frá þar sem kærufrestur var liðinn þegar kæran barst Hæstarétti.

Úrskurðinn í heild sinni má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×