Innlent

Sést jafnvel til sólar fyrir norðan á laugardag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það birtir til fyrir norðan á morgun.
Það birtir til fyrir norðan á morgun.
„Hún er heldur að minnka úrkoman en þó verður talsverð rigning á Ströndum og fyrir norðan fram yfir miðnætti,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gríðarlega mikil rigning hefur verið á þessum slóðum undanfarna daga með tilheyrandi tjóni og óþægindum fyrir íbúa.

Að sögn Þorsteins sýndi sjálfvirki mælirinn á Siglufirði 114,7 millimetra af úrkomu klukkan 9 í morgun. Það var sú rigning sem fallið hafði frá því klukkan 9 í gær. Um klukkan 23 í kvöld sýndi mælirinn svo að um 60 millimetrar af regni hefðu fallið á Siglufirði í dag.

„Þetta er ansi mikið vatnsmagn þegar þetta er komið upp í marga tugi millimetra og 100 millimetrar er mjög mikið,“ segir Þorsteinn en bætir við að veðrið eigi að skána á morgun. Samkvæmt spánni á að stytta upp og jafnvel mun sjást til sólar. 

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt, 13-18 metrar á sekúndu norðvestan til, allt að 23 metrar á sekúndu á Snæfellsnesi fram á nótt, en annars 8-13. Víða súld eða rigning en skýjað með köflum og þurrt sunnan-og vestanlands. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu í nótt. Norðlæg átt, 8-13 metrar á sekúndu og súld með köflum norðan-og austanlands á morgun en víða bjartviðri. Hægari um kvöldið. Hiti 10-16 sunnan heiða en 3-10 stig fyrir norðan.

Sjá nánar á veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×