Skoðun

Semjum strax við læknana

Þórir Stephensen skrifar
Læknaverkfallið verður nú æ alvarlegra og þjóðfélagið mun ekki standast það álag og það ástand sem hér verður eftir áramótin, verði af þeim hertu aðgerðum sem þá eru boðaðar. Hver heilvita maður hlýtur að sjá, að þá er allt öryggi horfið, mannslífin að veði og heilsufar allt. Nógu erfitt verður að vinna upp það sem þegar hefur verið slegið á frest og enda vafasamt að það takist án mannskaða.

Stjórnvöld neita enn að semja við læknastéttina af ótta við, að almennt launaskrið fylgi í kjölfarið með þeim hætti, að ekki verði við ráðið. Mér finnst sú afstaða ekki hæfa í svona máli. Ein af frumskyldum ráðamanna gagnvart borgurum landsins er að þeir njóti góðrar og öruggrar læknisþjónustu, að heilbrigðiskerfið sé eins öruggt og unnt er. Það hlýtur að teljast til þeirra réttinda sem eru nánast óendanlega mikils virði. Aðrar launastéttir hljóta að skilja, að heilbrigði einstaklingsins, hver sem hann er, verður ekki metið til fjár. Gott heilbrigðiskerfi og þjónusta metnaðarfullrar læknastéttar, sem sífellt sækir sér meiri menntun og innleiðir dýrmætar tækninýjungar, eru kjarabót sem við höfum sennilega aldrei metið sem skyldi. Það yrði ekki gott afspurnar, ef henni yrði fórnað vegna þess að aðrar stéttir gætu ekki horft á hag heildarinnar og ekki síst þeirra sem mest líða hverju sinni okkar á meðal.

Íslenskir læknar, og sá mannauður sem fylgir þeim í hæfu hjúkrunarliði og aðstoðarmönnum öðrum, er á heimsmælikvarða. Það er erfitt fyrir okkur, hina almennu borgara að horfa upp á, að þeir skuli ekki hafa kjöraðstæður hvað húsnæði og tækjabúnað snertir. Okkur blæðir stundum, er við sjáum milljarða fara í gæluverkefni einstakra þingmanna á meðan fjöregg heilbrigðisþjónustunnar, Landspítalinn, fúlnar úti í horni. Okkur finnst því vera mikið sanngirnismál, að laun læknastéttarinnar séu þannig, að hún geti vel við unað.

Ég hygg, að æðimargir taki undir með mér, er ég skora hér á stjórnvöld að þekkja nú sinn vitjunartíma og gefa þjóðinni það í jólagjöf, að hún megi áfram búa við öryggi í þessum málum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×