Innlent

Selfyssingur hefur fengið sig fullsaddan af myndatökum ferðamanna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jón Lárusson tók á dögunum mynd af fólki sem tók myndir inn í garð hans.
Jón Lárusson tók á dögunum mynd af fólki sem tók myndir inn í garð hans. Mynd/Jón Lárusson
„Það er eitt að hafa nágranna sem maður þekkir, eða fjöldann allan af alls konar fólki sem maður þekkir ekki neitt,“ segir Jón Lárusson, íbúi á Selfossi sem sendi bæjaryfirvöldum bréf vegna ónæðis af gestum á gistiheimili í næsta húsi.

„Maður kannast við það sjálfur að þegar komið er inn á hótelherbergi þá fer maður í gluggann og horfir út. Í þessu gistihúsi er það garðurinn okkar sem gestirnir horfa á. Þegar svo ónæðið eykst, svo ekki sé talað um myndatökur, þá er einfaldlega mælirinn fullur,“ segir Jón.

Þótt fólk hafi tekjur af ferðaþjónustu segist Jón telja það vera hlutverk sveitastjórnar að gæta hagsmuna íbúanna. „Bæjarráð telur að þau atvik sem athugasemdirnar lúta að séu ekki þess eðlis að gengið sé gegn grenndarrétti nágranna,“ var hins vegar svarið frá bænum.

„Ef sveitarstjórnin telur þetta ekkert mál og enga truflun, þá erum við tilbúin að skipta á fasteign við hvaða sveitastjórnarfulltrúa sem er í sumar. Það ætti ekki að vera neitt vandamál fyrir þau að taka boðinu, þar sem þetta er ekkert ónæði og að því er virðist fullkomlega eðlilegt að teknar séu myndir af fólki og heimilum þeirra,“ segir Jón Lárusson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×