Innlent

Segja það koma til greina að kaupa Grímsstaði á Fjöllum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Efnahags- og viðskiptaráðherra segir til greina koma að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum og landið verði þar með þjóðareign. Hann telur ríkið hafa efni á að kaupa landið en kaupsamningur sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo gerði við landeigendur hljóðaði upp á 800 milljónir.

Heilsíðuauglýsing birtist í dagblöðum í dag þar sem þess er skorað er á Alþingi og ríkisstjórnina að sjá til þess að Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign. Hundrað fimmtíu og sex einstaklingar skrifa undir áskorunina. Á meðal þeirra eru Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður og Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona, fyrrverandi ráðherrar, sveitarstjórnarmenn

Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptaráðherra telur til greina koma að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjölllum.

„Ef að málin geta farið þann farveg þá mundi ég gleðjast yfir því og ég sé að þarna í hópnum eru landeigendur eða að minnsta kosti landeigandi þannig að kannski eru ákveðin tímamót að verða í þessu máli með þessari yfirlýsingu," segir Steingrímur.

Ögmundur Jónasson samflokksmaður hans er á sömu skoðun.

„Mér finnst það kostur sem komi til greina allavega þurfi að taka þessa áskorun til málefnalegrar umfjöllunar og leiða hana til lykta á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis en þangað er þessari áskorun beint."

Kaupsamningur milli kínverska fjárfestisins Huang Nubo og landeigenda Grímsstaða á Fjöllum hljóðaði upp á 800 milljónir króna fyrir 72 prósenta hlut í jörðinni. Steingrímur telur að ríkið hafi efni á að kaupa landið.

„Ríkið sæi örugglega mikla kosti í því að fá þessa stóru jörð, leggja hana saman við jarðir sem ríkið á á svæðinu, Víðidal og Möðrudal ef ég man rétt, og þarna er síðan Vatnajökulsþjóðgarður og bandið í honum meðfram Jökulsá á Fjöllum. Þannig að auðvitað höfum við velt þessu máli líka fyrir okkur út frá þessum sjónarhóli," segir Steingrímur.

Það eru til peningar fyrir þessu?

„ Við erum ekki svo fátæk að við getum ekki stækkað Vatnajökulsþjóðgarð ef málið færi í þann farveg," svarar Steingrímur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×