Innlent

Segist saklaus af sérstaklega hættulegri líkamsárás

Stefán Árni Pálsson skrifar
Konan hlaut sár í hvítu á hægra auga og einnig skerta sjón.
Konan hlaut sár í hvítu á hægra auga og einnig skerta sjón. visir/stefán
Karlmaður, sem grunaður er um sérstaklega hættulega líkamsárás, neitaði í dag sök í í Héraðsdómi Reykjaness en hann á að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. maí 2012 kastað eða slegið glerglasi í andlit annars karlmanns.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum B5 í Bankastræti en glerbrot köstuðust einnig í andlit kvenmanns sem var gestur á staðnum.

Því næst á hinn ákærði að hafa slegið karlmanninn ítrekuðum hnefahöggum í andlit og líkama en maðurinn hlaut sár á hægra kinnbeini og á höku og margar grunnar yfirborðsrispur dreift um andlitið.

Konan hlaut sár í hvítu á hægra auga, sem saumað var í aðgerð, og einnig skerta sjón. 

Konan fer fram á að maðurinn greiði sér miskabætur að fjárhæð 2.500.000 króna auk bóta fyrir tímabundið atvinnutjón að fjárhæð 1.281.692 kr., bóta vegna sjúkrakostnaðar að fjárhæð 37.201 kr., bóta vegna gleraugnakaupa að fjárhæð 56.000 kr. og bóta vegna annars fjárhagstjóns að fjárhæð 1.680.000 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×