Samfylkingin hefur ekki mælst með jafn lágt fylgi og hún mælist með núna í rúm 13 ár, eða nánast frá stofnun flokksins. Í desember 1999 mældist flokkurinn með 14 prósenta fylgi, en hefur í tveimur skoðanakönnunum fyrir helgi mælst með 12,8 prósent. Varaformaður flokksins telur að þetta megi rekja til erfiðra verkefna sem flokkurinn hafi þurft að fylgja úr hlaði í ríkisstjórn eftir bankahrunið.
Samfylkingin mældist með 12,8 prósenta fylgi, bæði í könnun MMR í síðustu viku og könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem greint var frá á föstudag.
Eins og sést hér hefur fylgi Samfylkingarinnar ekki mælst jafn lágt og það er núna frá stofnun flokksins.
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Samfylkingarinnar, er gestur okkar í nýjasta þætti Klinksins.
Kanntu einhverjar skýringar á þessu? „Við vorum ekki boðberar góðra tíðinda framan af. Við höfum kannski verið með hausinn á bólakafi í þeim verkefnum og lítið komið upp til þess að teikna upp framtíðarsýn og mynd af samfélagi framtíðarinnar eins og við viljum sjá það. Það er verkefni okkar núna, inn í kosningabaráttuna. Við höfum sýnt árangur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Gríðarlegan árangur, ekki síst í ríkisfjármálunum þar sem okkur hefur tekist að loka stærsta fjárlagagati sem við höfum séð hér á landi. Það hefur gengið vel. Núna er verkefnið að teikna upp þessa framtíð sem við jafnaðarmenn viljum sjá í íslensku samfélagi og draga betur upp á yfirborðið hvað við höfum verið að gera í öðrum málum. Ég held að um leið og það er gert að þá hljóti þessar tölur að fara að rísa. Ég hef engar áhyggjur og ég læt skoðanakannanir ekki hreyfa mikið við mér," segir Katrín Júlíusdóttir.
Nýjasta þáttinn af Klinkinu má nálgast hér.
Segir vinnu eftir hrun skýra minnsta fylgi Samfylkingar frá stofnun
Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mest lesið


Afdrif Hörpunnar enn á huldu
Innlent

Agnes Johansen er látin
Innlent





Brúin komin upp við Dugguvog
Innlent

