Innlent

Segir tilefni til að endurskoða skattheimtuna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, tekur að miklu leyti undir orð Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstórans í Reykjanesbæ, sem sagði of marga nýta sér gloppur í kerfinu til að reikna sér lág laun eða vinna svart til að sleppa við að greiða réttmætan skatt. Björn segir tilefni til að endurskoða skattheimtuna. 

„Staðan er auðvitað svipuð hjá öllum sveitarfélögum. Það er auðvitað þannig að þeir sem hafa sínar tekjur að mestu af fjármagni greiða ekkert af sínum skattstofni til sveitarfélaganna þar sem útsvarið kemur af staðgreiðslunni. Það hefur verið rætt að það er ástæða til að endurskoða þessa skattstofna eitthvað þannig að fólk í þessari stöðu til dæmis hafi betra tækifæri til að leggja eitthvað til sveitarfélagsins þar sem stór hluti grunnþjónustunnar fer fram,” segir Björn.

Hann segist jafnframt sammála Kjartani að óeðlilegt sé að fólk fari fram á fyrsta flokks þjónustu í sveitarfélaginu á kostnað launþega sem greiði útsvar. Því sé tilefni til að endurskoða skattheimtuna.

„Auðvitað væri eðlilegast að allir legðu til sveitarfélaganna á þann hátt sem er gert með staðgreiðslukerfinu. En ég held að hugsanlega sé lausnin ekkert síður falin í því að endurskoða hvernig skattheimtunni er háttað. Það getur ekki verið þannig að fólk vilji fá allt fyrir ekkert og það er auðvitað hlutverk yfirvalda, stjórnvalda, ríkisins og sveitarfélaga að búa þannig um hnúta að fólk geti greitt til sveitarfélagsins, eða þar sem þjónustan er, þó það þiggi tekjur á mismunandi hátt. Ég held að það eigi að skoða það,“ segir Björn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×