Innlent

Segir Sigurjón hafa verið beittan pyntingum

Sigurjón Þ. Árnason og Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurjón Þ. Árnason og Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefur verið beittur andlegum pyntingum, eða í það minnsta ómannúðlegum meðferðum, með því að halda honum svo árum skipti föngnum í réttarstöðu sakbornings. Á meðan reyna stjórnvöld að hanna á hann refsiverða háttsemi og eru á sama tíma sígjammandi um sök hans og refsingu í fjölmiðlum.

Þetta kemur fram í grein sem Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, skrifar og birtir á Vísi í dag. Tilefnið er að í dag mun Sigurður láta reyna á fyrir héraðsdómi hvort ákæru á hendur Sigurjóni verði vísað frá dómi.

Sigurjón er ákærður ásamt sautján öðrum fyrrum starfsmönnum Landsbankans fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Landsbankanum á árunum 2003 til 2008.

Kröfuna um frávísun byggir Sigurður á því að við rannsókn málsins hjá embættis sérstaks saksóknara hafi Sigurjón ekki notið þeirrar málsmeðferðar sem réttarríkið á að búa þegnum sínum.

Sigurjón segir að ákæran eigi rót sína að rekja til rannsóknar og kæru Fjármálaeftirlitsins, sem hafi verið vanhæft til meðferðar málsins frá upphafi sem og forstjóri þess á þeim tíma, Gunnar Andersen.

„Rannsókn sakargifta á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni ber þess vott að Ísland eftir hrunið í október 2008 geti vart talist réttarríki, nema dómstólar vísi ákæru á hendur honum frá dómi,“ segir Sigurður í greininni.

„Ég mun líka örugglega vera minntur á það að ég sé lagatæknir útrásarvíkinga, ríkisbubba og hafandi auk þess verið í stjórn Glitnis banka hf. þegar hann féll. Kannski fæ ég nafnlausnar hótanir um limlestingar og þaðan af verra, eins og stöku aðilar hafa talið nauðsynlegt að senda mér þegar ég hef tjáð mig um hrunmál, og örugglega fæ ég hellings skítkast í athugasemdakerfum netmiðla. Mér er slétt sama. Ég er hins vegar tilbúinn í málefnalega umræðu.“

Greinina í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×