Innlent

Segir sátt í sjálfu sér einskis virði

BBI skrifar
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason, formannsframbjóðandi Samfylkingarinnar var gestur í útvarpsþættinum Á Sprengisandi í dag. Þar fór hann yfir víðan völl og sagði m.a. ekki útilokað að Samfylkingin gæti starfað með Sjálfstæðisflokknum.

Samfylkingin verður að móta sér skýra stefnu til næstu fjögurra ára. Þetta er mjög mikilvægt að mati Árna, „Því fólk óttast ekkert meira en stefnuleysi." Ef fólk finnur að stefnt er að réttu marki er það meira að segja reiðubúið að færa fórnir, segir Árni.

Árni telur ekki útilokað að Samfylkingin geti unnið með Sjálfstæðisflokknum, en hann segir að Samfylkingin geti tæplega unnið með flokkum sem hafa í grundvallaratriðum aðra stefnu í efnahagsmálum. „Þá stendur báturinn kjurr."

„Þess vegna er það meiri háttar vandamál ef það eru flokkar í samvinnu við okkur sem líta á það sem meginmarkmið að geta skert kjör fólks með því að fella gengi krónunnar og finnst það sniðugt," sagði Árni og vísaði þar til Vinstri Grænna og Sjálfstæðisflokksins.

Þáttarstjórnandinn spurði Árna út í stuðningsyfirlýsingar sem Guðbjartur mótframbjóðandi hans hefur fengið frá þingmönnum. „Mér finnst almennt séð að þingmenn eigi að gefa flokksfélögum svigrúm til að meta stöðuna sjálft," svaraði hann og telur að félagsmenn vilji taka svona ákvörðun sjálft.

Guðbjartur hefur gefið sjálfan sig út fyrir að vera sáttasemjanda. „Ef maður ætlar að vera sáttasemjari verður maður að hafa skýra sýn á það um hvað sú sátt á að vera. Sátt í sjálfu sér er einskis virði," sagði hann.

Hér að ofan má heyra viðtalið við Árna Pál í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×