Innlent

Segir neyðarlán til Kaupþings hafa verið mistök

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að það hafi verið mistök að veita Kaupþingi neyðarlán upp á tæplega 80 milljarða rétt fyrir fall bankanna í október 2008. Peningarnir hafi ekki dugað til að bjarga bankanum þar sem þeir fóru í annað en hann reiknaði með.

Daginn sem neyðarlögin voru sett veitti Seðlabankinn Kaupþingi neyðarlán upp á tæplega 80 milljarða en þremur dögum seinna var bankinn yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu. Leiðarahöfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðisins staðhæfði í febrúar að það hafi verið vilji ríkisstjórnar Geirs Haarde sem réð því að Seðlabankinn veitti Kaupþingi lánið á sínum tíma.

„Núna höfum við hinsvegar séð löngu seinna og eftir að bankinn var fallinn að hann stóð á mjög veikburða fótum á þessum tíma. Það gátum við ekki vitað og það eru náttúrlega hlutir að gerast heima akkurat þessa dagana sem sýna fram á það að því miður var ekki allt sem sýndist. Og að þetta lán sem bankinn fékk, þetta risastóra lán, dugði ekki til að bjarga honum. Meðal annars vegna þess að þessir peningar fóru í annað en ég hafði reiknað með að þeir færu í,“ segir Geir.

Eftir á að hyggja, voru þetta mistök?

„Auðvitað er hægt að segja það núna, þegar maður veit allt sem gerðist, að það hafi verið mistök að láta þetta lán af hendi. En það leit miklu betur út þá og vitanlega eru það mistök þegar það tapast miklir peningar. En það er bankinn sem veitti lánið að höfðu samráði við mig. Þannig var þetta,“ segir hann.

Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, og Geir ræddu lánveitinguna í síma þennan umrædda dag og er það símtal til á upptöku. Aðspurður segir Geir símtalið ekki skipta máli í þessu samhengi en það var tekið upp án hans vitundar.

„Ég hef bara af prinsipp-ástæðum ekki viljað fallast á að það sé hægt að hlera símtöl eða hljóðrita símtöl við forsætisráðherra af hans undirstofnun án þess að hann viti af því fyrr en einu og hálfu ári síðar eins og var í þessu tilfelli,“ segir Geir H. Haarde. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×