Viðskipti innlent

Segir neyðarástand á leigumarkaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
„Þó að margir vilji tala ástandið upp, þetta sé allt nice og frábært, þá er neyðarástand á leigumarkaði á Íslandi í dag. Það er bara einfalt.“

Þetta segir Ásta Hafberg, stjórnarmaður Samtaka leigjenda, sem var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hún um stöðuna á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Ásta segir að setið sé um íbúðir sem boðnar séu á leigu og þá sérstaklega ef þær séu ekki á hæsta verði. Öllum ætti þó að vera ljóst að markaðurinn gangi ekki upp eins og hann er í dag.

„Það er líklega mörgum sem finnst að það sé í lagi að leigja út þriggja herbergja íbúðir á 185 þúsund krónur til einstaklinga. En ef við tökum laun og kaupmátt inn í, þá sjá það allir sem hugsa hálfa hugsun, að það gengur ekki upp.“

Hún segir að til dæmis einstætt foreldri með tvö hundruð til tvö hundruð og fimmtíú þúsund krónur í laun á mánuði standi engan veginn undir slíkri leigu.

„Við erum komin með fleiri og fleiri dæmi inn á borð hjá okkur um að fólk sé að fltyja saman til að geta marið húsaleiguna og biðlistar eftir leiguíbúðum hafa lengst. Þó að margir vilji tala ástandið upp, þetta sé allt nice og frábært, þá er neyðarástand á húsnæðismarkaði á Íslandi í dag. Það er bara einfalt,“ segir Ásta.

Vilja norrænt leigukerfi

Ásta segir Samtök leigjenda hafa talað fyrir því að sett verði upp leigufélög sem ekki séu með ávöxtunarkröfu.

„Við þurfum að fara út í einhvers konar norrænt kerfi sem vinna hefur staðið að inn í Velferðarráðuneyti. ASÍ, Samtök leigjenda og fleiri hafa talað mikið fyrir því. Svona norrænu leigukerfi þar sem fólk hefur í raun og veru öruggt húsnæði. Ef það velur að leigja geti það leigt alla ævi.“

„Við eigum ekki að þurfa að kaupa til að geta verið örugg um að geta átt heima einhversstaðar. Það er eitthvað mjög skakkt við það.“

Ásta segir frumvarp um leigumarkaðinn í smíðum en að Samtökum leigjenda hafi ekki verið boðið að taka þátt í þeirri vinnu. Sem sé bagalegt.

„Maður veit aldrei hvernig svona frumvarp kemur út þegar þeir aðilar sem standa að því eru allir sammála um að vilja halda áfram að láta fólk kaupa fasteign.“

1.600 manns á biðlistum á höfuðborgarsvæðinu

Ásta segir að hér á landi hafi í raun ekki verið nein húsnæðisstefna til lengri tíma. Að verkamannaíbúðakerfinu undanskildu.

„Eftir að það er lagt af er í raun ekkert annað kerfi sem tekur við. Þá erum við með almennan leigumarkað, félagslegt leiguhúsnæði og svo að kaupa sér fasteign.“

Hún segir að um 1.600 manns séu á biðlistum eftir félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Við skulum líka taka með að fleiri sveitarfélög hafa verið að herða reglurnar hjá sér. Þannig að þeir sem áður voru inn á biðlistum, eru það ekki lengur. Það er búið að herða hvaða neyð fólk þarf að vera í til að geta fengið slíkar íbúðir. Það er búin að vera tíu prósent hækkun á milli á ára á biðlistum, þó svo að kerfið hafi verið hert.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×