Innlent

Segir merkum laxastofni í Þjórsá stefnt í hættu verði af Hvammsvirkjun

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna segir merkum laxastofni í Þjórsá stefnt í hættu láti stjórnvöld verða að því að byggja Hvammsvirkjun. Raunverulegt mat á áhrifum  virkjunarinnar á laxastofninn hafi ekki farið fram eins og lög geri ráð fyrir.

Alþingi samþykkti að færa Hvammsvirkjun, sem er efsta virkjunin af þremur sem Landsvirkjun vill reisa í neðri hluta Þjórsár, í nýtingarflokk Rammaáætlunar.

„Við erum að tala um að þarna eigi að fara fram þjóðnýting, áður en þjóðnýting fer fram þá þarf að fara fram miklar viðræður og samræður við fólkið sem á landið þarna og það hefur aldrei í raun verið gert. Það hefur verið tekinn einn og einn landeigandi þarna og reynt að gera samning við hann en það vantar heildstæða samninga,“ segir Orri Vigfússon formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna.

Orri segir að ef að virkjuninni verði þá sé laxastofnum í ánni stefnt í hættu. Þekkingu um þá sé ábótavant og það ætti að vera forgangsatriði að gera ítarlega úttekt á lífríki árinnar

„Þarna í Þjórsá er stærsti, villti, sjálfbæri laxastofninn á Íslandi og þó að víðar væri leitað.“

Og honum er stefnt í hættu? „Honum er stefnt í mikinn voða, já.

Gerð var rannsókn á lífríki Þjórsár árið 2002 en Orri segir þá rannsókn úrelta að mörgu leyti og þörf sé á ítarlegri rannsóknum til að meta hugsanleg áhrif virkjana í Neðri- Þjórs, sem og árangur af mótvægisaðgerðum. Í þetta mat vanti mikið af nauðsynlegum upplýsingum til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um málið.

„Eins og til dæmis lífslíkur á laxinum í framtíðinni, og allt smádýralíf og fleira og fleira sem við höfum lagt fram og þetta allt saman vantar. Og núna þegar þetta umhverfismat á að fara fram núna þá viljum við að það verði byrjað á því að gera þetta.

Allt aðrar forsendur hafi legið að baki matinu frá 2002.

„Þetta er allt gjörbreytt og það þarf að gera þetta alveg frá grunni aftur í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×