Innlent

Segir Guðlaug Þór hafa komið gögnum í Kastljós

Rekinn Gunnari Þ. Andersen var sagt upp störfum sem forstjóri FME á föstudag. Ástæður uppsagnarinnar má rekja til Kastljósþáttar sem sýndur 17. nóvember síðastliðinn og fjallaði um störf hans fyrir aflandsfélög Landsbankans. fréttablaðið/vilhelm
Rekinn Gunnari Þ. Andersen var sagt upp störfum sem forstjóri FME á föstudag. Ástæður uppsagnarinnar má rekja til Kastljósþáttar sem sýndur 17. nóvember síðastliðinn og fjallaði um störf hans fyrir aflandsfélög Landsbankans. fréttablaðið/vilhelm
Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins telur alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson hafa komið gögnum um sig til Kastljóss og að þau gögn hafi verið undirstaðan í umfjöllun þáttarins um hann í nóvember síðastliðnum. Stjórn FME kærði Gunnar til lögreglu fyrir helgi vegna gruns um að hann hafi brotið af sér í starfi með því að hafa, með ólögmætum hætti, aflað sér upplýsinga um Guðlaug Þór.

„Það er fullyrt í mín eyru, af mönnum sem ég treysti og trúi, að Guðlaugur Þór hafi komið gögnunum til Kastljóss sem umfjöllun þáttarins um mig byggði á," segir Gunnar. Hann vill ekki gefa upp hverjir það eru sem hafa fullyrt þetta. Gunnar telur einnig augljóst að miklu magni af gögnum um hann hafi verið lekið út úr Landsbankanum í þeim tilgangi að koma höggi á hann. Þá hafi skýrslur sem teknar hafi verið af honum hjá lögreglu í tengslum við rannsókn á Hauki Þór Haraldssyni, fyrrverandi starfsmanns Landsbankans, einnig ratað til fjölmiðla.

Stjórn FME sagði Gunnari upp störfum á föstudag og kærði hann til lögreglu vegna meintra brota í starfi. Kærumálið varðar upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs sem Gunnar er talinn hafa aflað með ólögmætum hætti. Þrír menn voru yfirheyrðir vegna þess máls á föstudag. Auk Gunnars voru Ingi F. Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, og starfsmaður Landsbankans, sem grunaður er um að hafa aflað gagnanna fyrir Gunnar, yfirheyrðir.

DV birti frétt á miðvikudag sem talin er byggja á gögnunum.

Aðspurður hvort hann hafi komið gögnunum til DV, segist Gunnar ekki vilja tjá sig. „Ég hef gefið skýrslu um mína hlið í málinu. Meira get ég ekki sagt enda málið enn í rannsókn." - þsj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×