Innlent

Segir Bretland standa frammi fyrir mikilli ógn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Theresa May.
Theresa May. vísir/ap
Breska öryggis- og leyniþjónustan hefur náð að koma í veg fyrir fjörutíu tilraunir til hryðjuverka frá árinu 2005. Um er að ræða byssuárásir á götum úti, tilraun til þess að sprengja upp kauphöllina í London, árásir á flugvélar og tilraunir til að myrða breskan sendiherra og breska hermenn.

Þetta kom fram í erindi Theresu May innanríkisráðherra Bretlands í dag þegar hún kynnti fyrirhugaðar breytingar á breskri hryðjuverkalöggjöf. Theresa segir Bretland ef til vill standa frammi fyrir meiri ógn en nokkru sinni fyrr og fjölbreyttari. Það stafi meðal annars af aukinni þróun íslömsku samtakanna IS sem virkað hafi hvetjandi á öfgamenn í röðum Breta.

Þá sagði ráðherrann að 733 handtökur hafi verið framkvæmdar frá því í maí 2010 er varða varnir gegn hryðjuverkum. Þar af hafi 138 verið dæmdir í fangelsi og 13 framseldir til annarra landa.

Hún sagði að með nýjum hryðjuverkalögum yrði bundinn endi á lausnargjöld til hryðjuverkahópa meðal annars með því að banna breskum tryggingarfyrirtækjum að greiða lausnargjöldin, sem hingað til hefur verið leyft. Með nýrri löggjöf munu lögregluyfirvöld öðlast heimild til þess að banna breskum ríkisborgurum að snúa aftur til Bretlands séu þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi erlendis.  Þá fá háskólar heimild til þess að banna þeim sem grunaðir eru að halda fyrirlestra og sérstökum aðferðum verður beitt á öfgamenn í fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×