Innlent

Segir aðferðir Vegagerðarinnar skapa mikla slysahættu

Runólfur Ólafsson.
Runólfur Ólafsson. Vísir/Haraldur
Lögreglan rekur bílveltu fyrir norðan til þeirrar aðferðar Vegagerðarinnar að strá lausamöl yfir olíu sem umferðinni er þá ætlað að þjappa. Félag íslenskra bifreiðaeigenda gagnrýnir þessar aðferðir sem og lélegar vegmerkingar.

Ung kona missti stjórn á bíl sínum, þegar hún ók um Ljósavatnsskarð í morgun, með þeim afleiðingum að bíllinn valt heila veltu út fyrir veginn. Vegagerðin var nýbúin að dreyfa þar fíngerðu malarefni á veginn, sem ætlað er að troðist ofan í malbikið undan umferð bíla, en það er mjög laust í sér fyrst eftir að því hefur verið dreift á vegina.

Konan slasaðist ekki alvarlega en var þó flutt á sjúkrahúsið á Akureyri til skoðunar. Að sögn lögreglunnar á Akureyri verða nokkur svona slys eða óhöpp á hverju ári, sem rekja má til þess að ökumenn missa stjórn á bílum sínum í lausu ofanálagi Vegagerðarinnar. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB gagnrýnir þetta verklag.

„Já, við gagnrýnum það. Það stafar af þessu mikil slysahætta. Þarna höfum við því miður dæmi um að ökumaður missi stjórn af ökutæki við þessar aðstæður. Þess utan verða fjölmargir bifreiðaeigendur fyrir miklu munatjóni því það skjótast steinar í allar áttir. Fyrir utan tjónið skapast mikil hætta,“ segir Runólfur um grjótkastið. Aðferðirnar samræmist ekki því sem þekkist á 21. öldinni.

Runólfur telur lítinn sparnað þessu samfara, eitt slys kostar miklu meira en sparnaður sem slík vegalögn hefur í för með sér. Erlendir ferðamenn þekki ekki vegi sem þessa.

„Eitt slys kostar margfalt á við þann sparnað sem menn hafa við svona vegalögn,“ segir Runólfur. „Með auknum túrisma eru þarna líka á ferðinni aðilar, eins og erlendir ferðamenn, sem hafa aldrei ekið við þessar aðstæður.“

FÍB hefur fengið mál til meðferðar vegna þessa.

„Já, við höufm fengið það. Í hverju tilfelli hefur veghaldarinn, í þessu tilfelli Vegagerðin, skyldur varðandi merkingar. Því miður hafa oft verið veruleg vanhöld á merkingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×