Innlent

Segir aðferðir lögreglunnar hættulegar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Jón Viðar Arnþórsson, formaður bardagaklúbbsins Mjölnis og fyrrverandi lögreglumaður, segir handtökuaðferðir lögreglunnar geta í mörgum tilvikum verið hættulegar. Hugmyndir hans um betri tækni fengu ekki hljómgrunn hjá Lögregluskólanum.

Málið hófst um síðastliðna helgi þegar ung kona sætti heldur harkalegri handtöku lögreglumanns í miðbænum. Ríkissaksóknar rannsakar nú málið og umboðsmaður Alþingis hefur einnig óskað eftir upplýsingum um handtökuna. Konan sagði í samtali við fréttablaðið í dag að hún ætli að leita réttar síns í málinu.

Málið sem hófst við gula bekkinn á Laugaveginum er þó hvergi nærri lokið. Nú er rætt um sjálfar handtökuaðferðir lögreglunnar. Jón Viðar Arnþórsson, fyrrverandi lögreglumaður og annar stofnenda Mjölnis, viðraði á sínum tíma hugmyndir um að innleiða bandaríska handtökutækni sem þykir ekki jafn róttæk og sú norska.

„Ef þú ert að æfa bardagaíþróttir og það á móti fólki með fulla mótspyrnu þá myndirðu aldrei nota þessi tök sem kennd eru í norsku aðferðinni, þau einfaldlega virka ekki," segir Jón Viðar, sem sér meðal annars um að þjálfa víkingasveit lögreglunnar.

Formaður Landssambands lögreglumanna sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni að lögreglumaðurinn sem handtók konuna hafi ekki gengið of langt.MYND/PJETUR


Jón Viðar skrifaði grein um STL handtöku- og yfirbugunarkerfið í tímarit Lögreglumanna árið 2007. Þá var hann nemi í Lögregluskólanum og hugnaðist ekki sú þróun sem orðið hafði í handtökuaðferðum lögreglunnar.

STL þykir afar einföld handtökutækni og er að ætlað að auka sjálfstraust lögreglumanna til að fást við æst og ofbeldisfullt fólk. Jafnframt eru brögðin ekki gróf enda er markmiðið að forðast óþarfa sársauka og meiðsl.

„Ég kynnti þetta kerfi fyrir lögreglunni og aðstoðarríkislögreglustjóra á þeim tíma og það var vel tekið í þetta. Það sama má segja um Landssamband lögreglumanna. Þegar ég kynnti þetta upp í lögregluskóla þá var ekki tekið mark á mér," segir Jón Viðar.

Formaður Landssambands lögreglumanna sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni að lögreglumaðurinn sem handtók konuna hafi ekki gengið of langt. Jón Viðar er ekki sammála þessu.

Hann ítrekar að erfitt sé að hafa stjórn á manneskjunni þegar norska aðferðin er annars vegar. Þegar jafnvægi viðkomandi sé lítið er hætta á að hún falli með andlitið í jörðina. Betra sé að nálgast manneskjuna að aftan og grípa um háls og undir handarkrika. Þetta sé betra fyrir lögreglumanninn sem og þann sem á í hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×