Viðskipti innlent

Seðlabanki Kanada tilbúinn í formlegar viðræður við Íslendinga

Alan Bones sendiherra Kanada á Íslandi segir að Seðlabanki Kanada sé tilbúinn í formlegar viðræður um að Ísland taki upp Kanadadollar sem gjaldmiðil verði farið fram á slíkt.

Sendiherrann mun ávarpa ráðstefnu á vegum Framsóknarfélags Reykjavíkur á morgun, laugardag, sem ber yfirskriftina "Er annar gjaldmiðill lausnin?

Bones segir í samtali við Fréttastofu að hann hafi haft samband við Seðlabanka Kanada og látið bankann vita af þessum vangaveltum sem verið hafa hérlendis um upptöku dollarans. Þetta hafi Bones gert í framhaldi af því að hópur íslenskra viðskiptamanna bað hann um að kanna hvernig viðtökur slík málaleitan myndi fá í Kanada.

Bones segir að Seðlabanki Kanada myndi líta það jákvæðum augum ef beiðni kæmi frá Íslandi um upptöku Kanadadollars og að bankinn sé tilbúinn til formlegra viðræðna um slíkt.

Aðspurður um hvort það sé raunhæft fyrir Íslendinga að taka upp Kanadadollarann segir Bones að það sé spurning sem Íslendingar þurfi að svara en ekki hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins mun einnig ávarpa ráðstefnuna. Hann segir að það væri afar óábyrgt að kanna ekki alla möguleika í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar hvað sem líði umsókninni um aðild að Evrópusambandinu.

Ráðstefnan verður haldin á Grand Hótel í fyrramálið og hefst kl. 10.30. Hún er öllum opin og aðgangur er ókeypis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×