Innlent

Sátt virðist ríkja um reglugerð sem lækka á byggingarkostnað

Sæunn Gísladóttir skrifar
Markmiðið með breytingunni á byggingarreglugerð er að lækka byggingarkostnað.
Markmiðið með breytingunni á byggingarreglugerð er að lækka byggingarkostnað. vísir/gva
Almennt virðist ríkja sátt um breytingar á byggingarreglugerð. Viðskiptaráð Íslands og Samtök Iðnaðarins fagna breytingunni.

Formaður Öryrkjubandalagsins telur niðurstöðuna eins ásættanlega og hægt var í ljósi þeirra aðgerða sem var áhugi fyrir að fara í.

Samtök iðnaðarins (SI) hefðu hins vegar viljað stíga skrefinu lengra.

Í reglugerðinni eru tilslakanir í rýmiskröfum einunigs látnar ná til íbúða sem eru allt að 55 fermetrar að stærð en hefði SI viljað láta þær ná til íbúða allt að nítíu fermetra að stærð.

Á þriðjudaginn var reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð undirrituð. Markmiðið er að lækka byggingarkostnað vegna íbúðarhúsnæðis.



Björn Brynjúlfur Björnsson
Gert er ráð fyrir að reglugerðin taki gildi við birtingu að undanskildum breytingum er varða minniháttar framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar, en þær taka gildi 15. júní.

Auk breytinganna er hafinn undirbúningur í ráðuneytinu að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki og skipulagslögum, þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi.

„Við fögnum þessu og finnst ánægjulegt að sjá að stjórnvöld séu að láta til sín taka þegar kemur að því að gera sem flestum kleift að eignast húsnæði," segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

„Reglugerðin gerði byggingu smærri íbúða afar óhagkvæma, til dæmis með nákvæmum formkröfum um lágmarksstærðir rýma.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ
„Við gagnrýndum hvað reglugerðin var ósveigjanleg, þá nefndum við auk lágmarksstærða rýma til dæmis kröfur um breiddir á göngum, og stigum og það að hafa handriði beggja vegna stiga og ítarlegar kröfur varðandi bæði sorpgeymslur og byggingaleyfi fyrir minniháttar framkvæmdir, svo eitthvað sé nefnt," segir Björn. „Öll þessi atriði er verið að lagfæra."

Viðskiptaráð telur að með breytingunni séu stór skref stigin í átt til lækkunar fasteignaverðs.

„Samtök Iðnaðarins mátu það sem svo að byggingareglugerðin árið 2012 hefði aukið kostnað smærri íbúða um tíu til tuttugu prósent. Hérna er verið að stíga veruleg skref til að mætt þeirri gagnrýni sem komið hefur fram og því má ætla að þessi hækkun muni að einhverjum hluta ganga til baka," segir Björn.

„Okkur finnst ekki í lagi að sé dregið úr kröfum varðandi aðgengi en þetta var eins ásættanlegt og hægt var í ljósi þess sem var áhugi fyrir að fara í," segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Þessi byggingarreglugerð heldur af okkar hálfu, en hún er ekki að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og það er ekki hægt að segja að hún sé stærra skref í átt að því að allar byggingar á Íslandi séu byggðar samkvæmt algildri hönnun," segir Ellen.

Ellen segir að Öryrkjubandalagið hafi reynt að fá aðkomu að nefndinni sem var að endurskoða byggingarreglugerð.

„En við fengum enga aðkomu þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Við erum ekki ósátt við þessa niðurstöðu sem var komist að, en það hefur farið heilmikill tími í að verja aðgengi. Það er það sem við viljum breyta. Að við þurfum ekki að verja aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða, en að stjórnvöld sjái hag sinn í að taka skrefið í átt að algildri hönnun til fulls," segir Ellen Calmon.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×