Skoðun

Samskipti ríkis og kirkju I

Þórir Stephensen skrifar
Þjóðkirkjan er að grunni til ein elsta skipulagsheild Íslandssögunnar. Allt frá árinu 1000 hafa ríki og kirkja átt samfylgd. En margt breytist. Nú er aðskilnaður ríkis og kirkju mikið í umræðunni. Kirkjan hefur aldrei óskað eftir honum, en samt haft uppi sterkar óskir um sjálfræði. Í raun hefur þannig hugsaður skilnaður þegar staðið í 17 ár.

Ég var í nefndinni, sem lauk þessu máli og vegna þeirra, sem um þetta fjalla nú, vil ég reyna að útskýra málið.

Forsagan er sú, að kirkjan átti fyrrum stóran hlut jarðeigna landsins. Um siðaskipti voru íslensku klaustrin aflögð og konungur hirti allar eignir þeirra. Um aldamótin 1800 voru jarðeignir biskupsstólanna seldar. Andvirði þeirra rann í ríkisfjárhirsluna, en biskuparnir voru settir á opinber laun. Eftir stóðu jarðir þær, sem voru í eigu kirknanna sjálfra. Þær voru tekjustofn prestanna í landinu. Á þeim byggðist kirkjulegt starf fram yfir 1900. Fljótlega eftir siðaskiptin kom í ljós, að þessar tekjur nægðu ekki. Því var verið að styrkja fátækustu prestaköllin úr konungssjóði og efnameiri prestsembættum. Einnig var prestum fækkað. Undir lok 19. aldar kom í ljós, að þetta fyrirkomulag gat ekki gengið lengur. Þess vegna var gripið til þess ráðs, að kirkjan afhenti ríkinu allar jarðeignir sínar, nema prestssetrin – ekki til eignar –heldur umsjónar. Skyldi ríkið hirða allan arð af þeim, en tók að sér að greiða prestunum föst laun. Þetta var gert 1907.

Kirkjujarðasamkomulagið

Með tímanum fyrndi yfir þessa gerð og stjórnmálamenn fóru að líta á þessar jarðir sem eign ríkisins. Gekk þetta svo langt, að ráðherrar seldu, án heimildar, afar dýrmætar jarðir á verði, sem hvergi hefði komið til greina í einkageiranum. Þetta varð að stöðva. Nefnd ríkis og kirkju komst að þeirri niðurstöðu, að jarðirnar væru enn eign kirkjunnar og því hefði ríkið engar heimildir haft til að ráðstafa þeim að vild. Var jarðaeignin, bæði seld og óseld, skráð og metin og gert nýtt samkomulag um, að íslenska ríkið eignaðist jarðirnar og tæki að sér að greiða, sem arð af þeirri eign, laun ákveðins fjölda starfsmanna kirkjunnar og annan kostnað, sem tiltekinn var í samningi 10. janúar 1997. Árið eftir tóku gildi s.k. þjóðkirkjulög byggð á kirkjujarðasamkomulaginu.

Það er því rangt, að þeir fjármunir, sem kirkjan fær nú frá ríkinu, séu framlag til hennar. Þeir eru að langstærstum hluta arður af yfirteknum eignum sem frá öndverðu var ætlað að standa undir þjónustu kirkjunnar.

Með þessu samkomulagi jókst svigrúm kirkjunnar umtalsvert til að stjórna eigin málum. Málin hafa þróast þannig, að forseti Íslands hefur skipað biskupana, en ráðherra hætti að skipa prestana og það vald var fært í hendur biskupi Íslands, enda fara hann, Kirkjuþing og Kirkjuráð nú með völdin á hinu kirkjulega sviði. Prestarnir eru áfram opinberir starfsmenn og hafa réttindi og skyldur sem slíkir.

Orðið þjóðkirkja varð til í stjórnarskránni 1874. Í hugum langflestra, sem henni fylgja og þjóna í dag, er hún sjálfstætt trúfélag, sem ræður sínum málum án íhlutunar ríkisvaldsins. Fjárhagsleg samskipti ríkis og þjóðkirkju byggjast svo á gagnkvæmu samkomulagi og skiptum á verðmætum. Kirkjuþing er skipað 29 mönnum, 17 leikum og 12 lærðum. Kirkjuráð er undir forsæti biskups skipað tveimur leikmönnum og tveimur guðfræðingum kosnum af Kirkjuþingi.

Ráðherra gegnir tilteknu, lögbundnu hlutverki innan kirkjunnar. Hann fer þar með eftirlitsskyldu, á rétt til setu á Kirkjuþingi með málfrelsi og tillögurétti. Hann hefur t.d. afskipti af starfsemi kirkjugarða, sem tilheyra öllum landsmönnum, og málum þeim tengdum, sem trúlega yrði aldrei hjá komist.

Sjálfstætt trúfélag

Samkvæmt lögum er þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag. Hún nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka. Þjónusta hennar á að vera á landsvísu, öllum tiltæk. Þar kemur einnig til þjónusta við ríkisvaldið um að tryggja skrásetningu staðreynda þannig, að unnt sé að halda til haga og staðreyna tiltekin málefni. Vegna stærðar sinnar og þéttriðins þjónustunets hefur hún verið ríkinu mikilvæg. Starf hennar fyrir fólk í erfiðleikum og neyð á öllum sviðum lífsins, er miklu meira en flesta grunar.

Aðkoma forsetans og ráðherra, ásamt stöðu vígðra þjóna kirkjunnar sem opinberra embættismanna, virðast mér nánast einu atriðin, sem nú tengja hana ríkinu. Það fyrirkomulag hefur reynst vel, og því, sem reynslan mælir með, er gott að una. Ég fæ ekki betur séð en að þeir, sem vilja breyta því, geri það mest breytinganna vegna.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×