Skoðun

Samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar: Lærum af reynslu Dana

Skapti Örn Ólafsson skrifar
Nú liggja fyrir Alþingi áform ríkisstjórnarinnar um rúmlega ellefu prósentustiga hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu ─ úr 11% í 22,5% með viðkomu í 24%. Það er ljóst að slík hækkun mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar á samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu fjölda ára fram í tímann. Nægir að líta til reynslu Dana í þeim efnum.

Í Danmörku var virðisaukaskattur hækkaður um þrjú prósentustig árið 1992, úr 22% í 25%. Það er vert að ítreka að hækkunin sem nú er lögð til á Íslandi er þrisvar sinnum meiri.

Áhrifin á danska ferðaþjónustu létu ekki á sér standa en frá árinu 1992 til ársins 2009 fækkaði erlendum ferðamönnum til Danmerkur jafnt og þétt. Fjöldi gistinátta þeirra í Danmörku við breytinguna var um 27 milljónir en hafði fækkað í 20 milljónir árið 2009. Síðan þá hefur dönsk ferðaþjónusta verið að ná sér hægt á strik.

Neikvæðar afleiðingar í rúm 20 ár

Það er vert að taka eftir því hér að það tók dönsku ferðaþjónustuna heil 17 ár að ná að snúa við þeirri neikvæðu þróun sem hófst með hækkun virðisaukaskattsins. En þrátt fyrir það var fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í Danmörku árið 2015, rúmum 20 árum eftir hækkunina, aðeins 24,7 milljónir samkvæmt upplýsingum frá dönsku hagstofunni og átti því enn langt í land með að ná sama fjölda og fyrir breytinguna.

Við Íslendingar berum okkur gjarnan saman við Norðurlönd þegar þörf er á jákvæðum fyrirmyndum. Það er hins vegar full þörf á því að líta til reynslu nágranna okkar þegar kemur að neikvæðum áhrifum af illa grunduðum aðgerðum ríkisvaldsins, eins og nú er verið að boða í tilfelli ferðaþjónustunnar.

Vegið að samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar

Það er mikilvægt í þessu sambandi að átta sig á muninum á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Danmörku annars vegar og Ísland hins vegar. Árið 2015 var ferðaþjónusta aðeins 3,6% af útflutningstekjum Danmerkur á meðan íslensk ferðaþjónusta hefur verið mikilvægasta útflutningsgreinin á Íslandi frá árinu 2014, stærri en bæði sjávarútvegur og álframleiðsla.

Hlutfallslega meira mikilvægi ferðaþjónustunnar á Íslandi sýnir svo ekki verður um villst hve miklu meiri áhætta felst í slíkum neikvæðum áhrifum til langs tíma fyrir Ísland.

Rúmlega ellefu prósentustiga hækkun virðisaukaskatts er glapræði sem mun stórskaða samkeppnishæfni ferðaþjónustu á Íslandi til langrar framtíðar og mun ef af verður aldrei skila þeim ávinningi sem til er ætlast. Danska dæmið gæti ekki verið skýrara. Lærum af því.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×