Innlent

Sameining ráðuneyta kostaði 437 milljónir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Árið 2011 nam kostnaður vegna sameiningar ráðuneyta rúmum 311 milljónum króna. 
Fréttablaðið/Vilhelm
Árið 2011 nam kostnaður vegna sameiningar ráðuneyta rúmum 311 milljónum króna. Fréttablaðið/Vilhelm
Heildarkostnaður við sameiningu ráðuneyta á síðasta kjörtímabili nam rúmum 437 milljónum króna. Inni í þeirri upphæð er ekki kostnaður sem kom til vegna starfsmanna ríkisins sem fóru á biðlaun þegar ráðuneyti voru sameinuð.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns um sparnað af sameiningu ráðuneyta.

Í svarinu, sem birtist á vef Alþingis í fyrradag, er farið yfir þær miklu skipulagsbreytingar sem farið var í á tímabilinu.

„Á síðasta kjörtímabili urðu þannig til þrjú ný ráðuneyti með sameiningu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti,“ segir í svarinu. Þar er einnig tekið fram að ýmsar tilfærslur á verkefnum og málaflokkum á milli ráðuneyta hafi leitt til nafnabreytinga á öðrum ráðuneytum.

„Ekki er hægt að greina á milli árangurs af sameiningu ráðuneyta og almennrar hagræðingar sem átti sér stað á tímabilinu.“

Stöðugildum á aðalskrifstofum ráðuneytanna fækkaði úr 504 í maí 2009 í 477 í sama mánuði 2014. Einnig fækkaði þeim skrifstofustjórum ráðuneytanna sem voru án skrifstofu á tímabilinu.- hg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×