Innlent

Sá grasfræjum til að binda gosöskuna

Landgræðslan mun á næstu dögum sá grasfræi á Markarfljótsaurum, undir austanverðum Eyjafjöllum og á Skóga- og Sólheimasandi.
Landgræðslan mun á næstu dögum sá grasfræi á Markarfljótsaurum, undir austanverðum Eyjafjöllum og á Skóga- og Sólheimasandi.
Á næstu dögum verður byrjað að sá grasfræi í 40 ferkílómetra lands í grennd við Eyjafjallajökul. Að sögn Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra er talið að með sáningunni verði unnt að draga úr öskufoki í byggð á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti.

Sáð verður á Markarfljóts-aurum, undir Eyjafjöllum austanverðum og enn fremur verður, í samstarfi við Vegagerðina, sáð á Skógasandi og Sólheimasandi.

„Þetta mun ekki koma í veg fyrir öskufok en mun draga úr því," segir Sveinn sem segir landeigendur munu sjá um sáninguna undir stjórn Landgræðslunnar. Hann segir að umhverfisráðherra muni hafa forgöngu um að kynna málið í ríkisstjórn en talið er að verkið kosti um 100 milljónir króna. Sveinn segir ekki vinnandi veg að bregðast við foki á hálendinu vegna öskunnar. „Við munum sá í um 40 ferkílómetra af landi en það er aska á um 4.000 ferkílómetrum að talið er," segir Sveinn.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, bendir á að til framtíðar sé tilvalið að sá birki eins og verið er að gera í Hekluskógum, en hann er verkefnastjóri þar.

„Það er verið að koma upp lundum af birki en birki sáir sér auðveldlega út, einkum í góðum fræárum." Hreinn segir þessa leið ódýra og til framtíðar góða leið til að taka við gosösku, eins og Þórsmörk sanni.

„Inni í skógunum í Þórsmörk verður ekki sama fjúk og á bersvæðunum," segir Hreinn. Skógurinn þoli vel öskuna og nýti næringarefni í henni.

Gróðurinn í skógarbotninum vaxi upp úr öskunni, nú þegar hafi hvönn brotið sér leið upp úr öskunni en tegundum muni fjölga er líður á sumarið. Þórsmörk hafi verið friðuð í áratugi og því sé gróður þar jafn mikill og raunin er. „Þar er mikið af sjálfsprottnu birki enda engin önnur tegund jafn dugleg að sá sér."

Nokkrum dögum síðar var
Breyting á nokkrum dögum 20. maí var um að litast í Húsadal eins og myndin til vinstri sýnir, askan úr Eyjafjallajökli hafði myndað lag utan um trén sem var nánast eins og steypa. Hinn 25. maí höfðu tré laufgast eins og myndin til hægri sýnir. Ljósmyndir /Hreinn Óskarsson


x


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×