Innlent

Rússar vilja opna spilavíti í Perlunni

„Þetta eru forríkir menn sem vilja kaupa Perluna og opna þar spilavíti," segir Ásgeir Þór Davíðsson, oft kenndur við Goldfinger, sem er tengiliður fyrir nokkra Rússa sem vilja fjárfesta hér á landi. „Ef af þessu yrði myndi þetta þýða miklar tekjur fyrir þjóðina."

Perlan er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en líkt og áður hefur komið fram eru allar eignir utan kjarnastarfsemi fyrirtækisins til sölu og er það gert til að brúa fjárþörf Orkuveitunnar.

Ásgeir segist hafa þekkt umrædda menn í nokkur ár en þáverandi sendiherra Rússa hér á landi kom þeim saman. Ásgeir segir að mennirnir hafi sýnt áhuga á að kaupa Perluna fyrir um áratug. Einnig hafi þeir velt fyrir sér að kaupa hús Eimskipafélagsins við Pósthússtræti. „Þá var verið að skoða hvort það væri hægt að gera þetta þannig að spilavítið væri bara fyrir útlendinga. Íslendingar myndu ekki fá að fara inn eins og þegar íslenskum körlum var bannað að fara á böll með bandarískum hermönnum á sínum tíma."

Ásgeir segir Remax í Kópavogi hafa útvegað teikningar af Perlunni fyrir hina áhugasömu fjárfesta. „Þeir eru að fara yfir þær og svo er verið að bíða eftir því að Orkuveitan gefi upp verð. Eins og með svo margt annað hér á landi er unnið á hraða snigilsins."

Að mati Ásgeirs er um afar spennandi tækifæri að ræða þar sem verkefnið gæti skilað þjóðarbúinu miklum fjárhæðum. Ásgeir segir mennina eiga hótel, spilavíti, næturklúbba og verksmiðjur í heimalandinu og nokkrum Evrópulöndum. „Þetta eru verksmiðjur sem framleiða húsbúnað og annað í hótel og spílavíti." Ásgeir á von á því að fara út í næsta mánuði og hitta Rússana eða þá að þeir komi til Íslands vegna málsins. Það skýrist á næstunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×