Innlent

Rúmföt Íslendinga þvegin sjaldnar en Breta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
23,7% Íslendinga sögðu að rúmfötin væru þvegin á þriggja vikna fresti eða sjaldnar.
23,7% Íslendinga sögðu að rúmfötin væru þvegin á þriggja vikna fresti eða sjaldnar. Vísir/Getty
Rúmlega 65% Íslendinga þvo rúmföt sín á tveggja vikna fresti eða oftar. 19,3% þvo rúmföt sín vikulega eða oftar og 34,6% þvo þau á þriggja vikna fresti eða sjaldnar. Þetta kemur fram í könnun MMR.

Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við niðurstöður samskonar könnunar YouGov í Bretlandi kom í ljós rúmföt Breta eru að jafnaði þvegin oftar en Íslendinga. Þannig sögðust 76,3% Breta þvo rúmfötin sín á tveggja vikna fresti eða oftar, 38,7% sögðu að rúmfötin væru þvegin vikulega eða oftar og 23,7% sögðu að rúmfötin væru þvegin á þriggja vikna fresti eða sjaldnar.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu af hverju þessu munur stafar. Hugsast getur að ástæðan liggi í því að vatn á Íslandi er sérstaklega mjúkt (lágur styrkur kalsíns og magnesíns) og þvoi því sérstaklega vel að því er segir í frétt MMR.

Einnig er hugsanlegt að Íslendingar séu sérstaklega ötulir við að sturta sig. Það eitt er víst að hér er um verðugt rannsóknarverkefni til framtíðar að ræða.

Spurt var: „Að jafnaði, hversu oft eru rúmfötin þín þvegin?"

Svarmöguleikar voru: Oftar en vikulega, vikulega, 2 vikna fresti, 3 vikna fresti, 4 vikna fresti, 5 vikna fresti, 6 vikna fresti, 7 vikna fresti eða sjaldnar og Veit ekki/vil ekki svara.

Samtals tóku 89,4% afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×