Sport

Rudisha náði í annað ÓL-gull í 800 metra hlaupi karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Rudisha.
David Rudisha. Vísir/Getty
Kenýamaðurinn David Rudisha er Ólympíumeistari í 800 metra karla en hann vann úrslitahlaupið á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Þetta er annað Ólympíugull David Rudisha í röð í þessari grein en hann vann einnig gull í London fyrir fjórum árum síðan.

David Rudisha kom í mark á 1:42.15 mín.. Hann náði ekki að bæta heimsmetið sitt en þetta var fljótasti tími ársins í 800 metra hlaupi karla.

Taoufik Makhloufi frá Alsír fékk silfur og Bandaríkjamaðurinn Clayton Murphy tók bronsið eftir mikinn endasprett.

Alfred Kipketer, landi David Rudisha, keyrði upp hraðann í hlaupinu og sprengdi sig á endanum. Hann endaði í sjöunda sæti.

David Rudisha er nú ríkjandi heims- og Ólympíumeistari en hann vann gull á HM í Peking í fyrra. Hann varð einnig heimsmeistari árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×