Viðskipti innlent

Róbert kannar hvort hann geti rift Glitniskaupum

Róbert Wessmann, sem keypti hlutabréf í Glitni fyrir tæpa sex milljarða króna nokkrum dögum áður en bankinn féll, kannar nú hvort hann geti rift kaupunum.

Fimm vinnudögum áður en ríkið tók Glitni yfir keypti Róbert Wessmann kaupsýslumaður hlut í bankanum upp á tæplega sex milljarða króna. Það var tveggja og hálfs prósents hlutur í bankanum.

Nokkrum dögum eftir kaup Róberts óskuðu forsvarsmenn Glitnis eftir láni frá Seðlabanka Íslands eftir að þýskur banki gjaldfelldi lán til Glitnis. Seðlabanki Íslands var um þetta leyti að taka lán hjá sama banka. Seðlabankinn vildi ekki veita Glitni umbeðið lán og tók bankann yfir og tæplega sex milljarða króna fjárfesting Róberts varð að engu við fall Glitnis.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 kannar Róbert nú hvort hann geti höfðað mál til riftunar þessum kaupum. Róbert Wessmann vildi ekkert tjá sig um málið þegar Stöð 2 hafði samband við hann.

Ekki er alveg ljóst gegn hverjum hugsanlegt riftunarmál myndi beinast, Gamla Glitni eða gegn núverandi eigendum bankans, það er að segja íslenska ríkinu. Að öllum líkindum yrði það þó gegn Glitni en bréfin sem Róbert keypti voru í eigu Glitnis.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×